Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, hefur óskað eftir því við stjórnarformann Orkuveitu Reykjavíkur að stíga tímabundið til hliðar sem forstjóri á meðan þau mál sem „komið hafa upp“ verði skoðuð og úttekt gerð á vinnustaðarmenningu fyrirtækisins.
Bjarni segir að hann telji afar mikilvægt, bæði í þágu starfsmanna og almennings að sú skoðun fari fram og að hans ákvarðanir megi ekki vera undanskildar í þeirri úttekt.
Yfirlýsing þessa efnis var send fjölmiðlum rétt í þessu. Hana má lesa í heild sinni hér að neðan.
„Ég hef óskað eftir því við formann stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að stíga tímabundið til hliðar sem forstjóri á meðan þau mál sem komið hafa upp verða skoðuð og úttekt gerð á vinnustaðarmenningu fyrirtækisins.
Ég tel afar mikilvægt bæði í þágu starfsmanna og almennings að sú skoðun fari fram. Þar mega mínar ákvarðanir ekki vera undanskildar. Því tel ég rétt að víkja tímabundið á meðan málið er skoðað.
Starfsfólk OR hefur lagt mikið á sig á síðustu árum við að byggja fyrirtækið upp á ný úr krappri stöðu. Sú vinna hefur ekki síst snúið að auknu jafnrétti kynjanna og bættri vinnustaðarmenningu. Áríðandi er að halda þeirri mikilvægu vinnu áfram.“