Spjótum beint að Svandísi og Bjarna

Bjarni sagðist fagna vinnu heilbrigðisráðherra að nýrri stefnu.
Bjarni sagðist fagna vinnu heilbrigðisráðherra að nýrri stefnu. mbl.is/Eggert

Heilbrigðisráðherra hefur ekki áhyggjur af því að þingsályktunartillaga um nýja stefnu í heilbrigðismálum, sem nú er í mótun, komist ekki í gegn innan ríkisstjórnarinnar. Þetta kom fram í máli Svandísar Svavarsdóttur þegar hún svaraði fyrirspurn Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.

Heilbrigðismál voru í brennidepli í fyrirspurnatíma dagsins, og þar beindu þingmenn spjótum sínum ýmist að Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, eða Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Þess hefur gætt að þingmenn Sjálfstæðisflokksins styðji ekki þá stefnu sem heilbrigðisráðherra virðist vera að taka í heilbrigðisþjónustu.

„Nei, ég hef ekki áhyggjur af því að ný heilbrigðisstefna komist ekki í gegnum þingflokka stjórnarflokkanna eða í gegnum ríkisstjórn,“ sagði Svandís í svari sínu við spurningu Helgu Völu.

Þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, og Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, beindu keimlíkum fyrirspurnum til fjármálaráðherra og vildu fá að vita hvort honum þætti það skynsamleg notkun á opinberu fé að senda sjúklinga í aðgerðir, sem hægt sé að sinna hér, til útlanda með allt að þreföldum kostnaði, og hvort ráðherra ætlaði að beita sér fyrir því að fleira fólk gæti fengið úrlausn sinna mála hér á landi.

Fagnar vinnu heilbrigðisráðherra

„Það er auðvitað ekki góð ráðstöfun á opinberu fé þegar við sitjum uppi með kostnað vegna aðgerða sem hægt væri að gera hér heima, fyrir þær sakir einar að sjúklingar hafa rétt til að fara til útlanda og við fáum þrefaldan reikning. Það eru væntanlega allir sammála um þetta,“ sagði Bjarni. „Ég mun beita mér fyrir því, við öll í ríkisstjórn munum beita okkur fyrir því, heilbrigðisráðherra er að beita sér fyrir því að stytta biðlista, að tryggja betri heilbrigðisþjónustu og að auka fjármögnun kerfisins.“

„Það er mín skoðun að við séum með aðeins of stagbætt kerfi og það er þörf á heildarstefnumótun. Ég fagna því að ráðherrann vinnur að henni núna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert