„Þetta er á ábyrgð stjórnar Orkuveitunnar, við förum aldrei inn í svona mál í pólitíkinni, þess vegna erum við með stjórnir, þær eru ábyrgar fyrir öllum rekstri Orkuveitunnar,“ Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, um uppsagnir hjá Orku náttúrunnar.
Uppsagnirnar eru tvenns konar. Fyrir viku síðan Áslaugu Thelmu Einarsdóttur, forstöðumanni einstaklingsmarkaðar hjá ON, sagt upp. Tveimur dögum síðar var Bjarna Má Júlíussyni, framkvæmdastjóra ON, sagt upp störfum.
Sama dag birti Einar Bárðarson, eiginmaður Áslaugar, færslu á Facebook þar sem gagnrýnir forstjóra í stórfyrirtæki harðlega, án þess að nefna hann á nafn, fyrir óviðeigandi hegðun. Í morgun birti Áslaug Thelma færslu á Facebook þar sem hún tengir uppsögn sína við ítrekaðar kvartanir hennar undan hegðun Bjarna Más.
Þórdís Lóa segir stjórn Orkuveitunnar og stjórn Orku náttúrunnar stýra og bera ábyrgð á uppsögnunum en að borgarráð muni senda skýr skilaboð varðandi hvernig tekið verður á málinu. „Okkur er full alvara með það að allar stofnanir borgarinnar vinni af heilindum í því að útrýma gamalgróinni menningu þar sem niðrandi er talað um konur eða einhverja hópa í samfélaginu yfirhöfuð.“
Um mögulega aðkomu borgarráðs að málinu segir Þórdís Lóa að það skipti máli að gefa stjórn Orkuveitunnar góðan tíma. „Það skiptir rosalega miklu máli að ana ekki að neinu, hér er mikið í húfi, þarna er fólk, ekki bara þessir tveir aðilar sem hefur verið sagt upp störfum. Þarna er um menningu að ræða sem þarf að uppræta.“