Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson hlutu í dag fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Þá fékk Sveinn Runólfsson Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti, fyrir að hafa um áratuga skeið staðið í framvarðasveit í baráttunni fyrir vernd og endurreisn vistkerfa landsins.
Verðlaunin voru veitt í tengslum við Dag íslenskrar náttúru, sem var í gær.
Var það niðurstaða dómnefndar að veita þeim Tómasi og Ólafi Má fjölmiðlaverðlaunin fyrir myndefni, upplýsingar og greinaskrif um íslenska náttúru á síðustu tólf mánuðum. Segir í rökstuðningi nefndarinnar að þeir félagar hafi heimsótt fjölmarga staði og sótt þangað nýtt efni, bæði ljósmyndir og myndskeið og nýtt sér samfélagsmiðla og aðra fjölmiðla til að koma þessu efni á framfæri. „Tómas og Ólafur Már hafa verið óþreytandi við að halda íslenskri náttúru á lofti í fjölmiðlum, hefðbundnum sem óhefðbundum, á síðastliðnu ári og er það samdóma álit dómnefndar að með því hafi þeir haft bein áhrif á að lítt þekktar náttúruperlur, svo sem fossaröð á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði Hvalárvirkjunar, hafa komist í almenna umræðu,“ sagði í niðurstöðu dómnefndar.
Dómnefndina skipuðu þau Ragna Sara Jónsdóttir sem var formaður, Jón Kaldal og Valgerður Anna Jóhannsdóttir.
Einnig voru tilefnd þau Sunna Ósk Logadóttir, blaðamaður mbl.is, fyrir greinaflokkinn Mátturinn eða dýrðin, og Kjartan Kjartansson, blaðamaður á Vísi.is, Bylgjunni og Stöð 2, fyrir umfjöllun um loftslagsmál.