Í Reykjavík á eftir að ráða í 38,8 stöðugildi í leikskóla, 16,5 stöðugildi í grunnskóla og 64 stöðugildi í frístundaheimili og sértækar félagsmiðstöðvar, samkvæmt upplýsingum sem safnað var 13. september.
Búið er að ráða í 97,5% stöðugilda leikskóla og 99,3% stöðugilda grunnskóla, en aðeins 82,1% stöðugilda frístundaheimila. Ráðningar standa þó yfir og breytast tölurnar því dag frá degi.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í minnisblaði sem lagt var fram á borgarstjórnarfundi í dag. Á svipuðum tíma í fyrra var staðan talsvert verri á leikskólum og frístundaheimilum, en þá átti eftir að ráða í 96,1 stöðugildi í leikskóla og 88,9 stöðugildi í frístundaheimili. Hins vegar átti aðeins eftir að ráða í 7,9 stöðugildi í grunnskóla.
Af öðru minnisblaði, sem fjallar um aðgerðir sem ætlað er að tryggja næga mönnun í leikskólum borgarinnar haustið 2018, má lesa um markaðsátak sem farið var í á síðasta ári til að gera leikskólastörf meira aðlaðandi.
Hvað nýjar aðgerðir varðar segir í minnisblaðinu að meðal annars sé fyrirhugað að taka til notkunar nýtt ráðningakerfi, hefja tilraunaverkefni með stofnun miðlægrar afleysingastofu, auka undirbúningstíma starfsfólks, hafa leikskóla lokaða á aðfangadag og gamlársdag og heimila niðurfellingar leikskólagjalda á milli jóla og nýárs, sem geti gefið leikskólastjórum svigrúm til að gefa starfsfólki frí á þessum tíma.
Leiðrétting: Í upphaflegri frétt var notast við tölur frá því um miðjan ágúst. Mbl.is hefur nú fengið rétt minnisblað í hendurnar og hefur fréttin verið uppfærð.