Umhverfisstofnun hefur hafnað beiðni Ferðafélags Íslands um að reisa 42 fermetra skjólhús í Hrafntinnuskeri, sem er innan Friðlandsins að Fjallabaki.
Fram kemur í úrskurði stofnunarinnar að með byggingu skjólhússins sé verið að auka við þjónustu við ferðamenn á svæðinu, sem sé til þess fallið að leiða af sér aukna notkun á salernum og þar með aukið magn seyru.
Fyrirhugað var að fara í framkvæmdir við skjólhúsið í þessum mánuði, en þar er gert ráð fyrir að verði aðstaða til eldunar og vaskur til að þrífa áhöld, ásamt borðum með bekkjum fyrir um 40 manns. Húsið á að koma í stað vaskaskýlis sem er á staðnum til að notast við frárennsli sem þar er.
Skálinn í Hrafntinnuskeri er einn afskekktasti fjallaskáli á landinu og erfitt er að koma árlega 5-10 tonnum af seyru af svæðinu um illfæra slóða, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.