Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðargreiningar, segir ferlið frá því að skóflustunga að byggingunni sem hýsir jáeindaskannann við Landspítala var tekin í janúar árið 2016 og þar til hann var tekinn í notkun í síðustu viku vera röð af klaufaskap og mistökum.
Fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir því að taka mætti tækið í notkun um miðjan september árið 2016, en þær stóðust ekki, né heldur áætlanir sem gerðu ráð fyrir því að skanninn yrði tekinn í notkun síðasta haust og janúarmánuði síðastliðnum. Í apríl framkvæmdi Lyfjastofnun úttekt á geislavirku lyfi, sem gefa þarf þeim sjúklingum sem fara í jáeindaskannann. Hann var hins vegar ekki formlega tekinn í notkun fyrr en í síðustu viku.
Pétur H. Hannesson, yfirlæknir á röntgendeild Landspítala, sagði í samtali við mbl.is í gær það hafi ef til vill verið óskhyggja að klára verkið á rúmu ári. Kári fullyrðir að ef Íslensk erfðagreining hefði byggt jáeindaskanna í Vatnsmýri hefði það tekið eitt ár, en ekki tæp þrjú. Jáeindaskanninn var að stærstum hluta gjöf til spítalans, eða öllu heldur þjóðarinnar, frá Íslenskri erfðagreiningu og kostar í heildina rúman milljarð króna.
„Þetta er ósköp einfaldlega þvaður,“ segir Kári um orð Péturs og bendir hann á að þrjú ár séu langur tími þegar litið er til jafn stórra tækja og jáeindaskannans. „Svona tæki hefur takmarkaðan endingartíma og allt í einu er það orðið þriggja ára gamalt þegar það er tekið í notkun,“ segir Kári.
Hann segir að ferlið sýni að það er ekki nóg að dæla peningum í íslenska heilbrigðiskerfið heldur þurfi að fylgja því vel eftir, sem hafi ekki verið gert í tilviki jáeindaskannans.
Engir eftirmálar verða hins vegar vegna málsins að sögn Kára. „Við munum halda áfram að hlúa að íslensku heilbrigðiskerfi. Það truflar mig í sjálfu sér ekkert að það hafi átti sér röð af mistökum. Nú vonast ég til þess að þetta gagnist spítalanum og íslenskum sjúklingum,“ segir Kári.