Segir að fyrirkomulagið virki ekki

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert

Heilbrigðisráðherra segir að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur um samning Sjúkratrygginga Íslands og sérfræðilækna sýni að fyrirkomulagið við að hafna umsóknum virkar ekki.

Hún segir að gerð verði ítarleg úttekt á málinu, að sögn RÚV.

Íslenska ríkið tapaði í gær máli fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem sérfræðilæknirinn Alma Gunnarsdóttir höfðaði vegna ákvörðunar Sjúkratrygginga Íslands um að synja henni um aðild að rammasamningi.

Ákvörðun Sjúkratrygginga var felld úr gildi og var ríkinu gert að greiða Önnu 1,8 milljónir í málskostnað.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fór yfir dóminn með ríkislögmanni í dag. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um áfrýjun, auk þess sem ekki er vitað hvort skaðabótaskylda hafi myndast.

„Það er mitt mat að dómurinn sé mjög vel ígrundaður og hann sé sterkur efnislega og röksemdirnar, þær eru afgerandi,“ sagði hún í kvöldfréttum RÚV.

Árið 2017 gaf Óttarr Proppé, þáverandi heilbrigðisráðherra, fyrirmæli um að loka samningi Sjúkratrygginga og sérgreinalækna, og hefur umsóknum lækna um aðild að honum síðan þá verið hafnað.

Svandís sagðist fyrir nokkru telja að ákvörðun um að hafna umsóknum sérfræðilækna væri lögleg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka