Fjöldi erlendra ferðamanna sem komu í Rangárvallasýslu á síðasta ári var sexfalt meiri en fyrir níu árum. Þeim fjölgaði úr 230 þúsund í 1.381 þúsund á árunum 2008 til 2017.
Þessar tölur benda til að 69% erlendra ferðamanna sem koma til Íslands með flugi eða ferju á síðasta ári hafi komið í Rangárvallasýslu og svæðið hafi aukið hlut sinn um 50% á þessum árum.
Fyrirtækið „Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar“ (RFF) hefur tekið saman skýrslu um komur ferðamanna í Rangárvallasýslu og Rangárþing ytra sérstaklega fyrir markaðs- og kynningarfulltrúa sveitarfélagsins. Upplýsingarnar eru unnar upp úr könnun fyrirtækisins meðal brottfararfarþega í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og í ferjuhöfninni á Seyðisfirði.
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar hefur ferðamannatíminn á svæðinu lengst mjög. Þannig fjölgaði erlendum ferðamönnum sem koma yfir þrjá sumarmánuði úr 167 þúsund í 569 þúsund í fyrra eða um 3,4 falt. Hins vegar fjölgaði erlendum vetrargestum miklu meira, eða úr 63 þúsund í um 812 þúsund, eða 13 falt. „Ferðaþjónustan er því orðin öflug heilsársatvinnugrein á svæðinu,“ segir í skýrslu RFF sem um er fjallað í Morgunblaðinu í dag.