BSRB fordæmir harðlega bónusgreiðslur til stjórnenda fyrirtækja og laun sem eru í engu samræmi við raunveruleika launafólks.
Í ályktun formannaráðs bandalagsins, sem samþykkt var á fundi ráðsins, er skorað á fulltrúa launafólks og atvinnurekenda í stjórnum lífeyrissjóða að berjast gegn bónusgreiðslum og ofurlaunum enda eigi lífeyrissjóðir landsmanna ekki að fjárfesta í fyrirtækjum sem sýni af sér algert siðleysi þegar kemur að launakjörum stjórnenda.
Ályktunin er svohljóðandi:
„Formannaráð BSRB fordæmir harðlega bónusgreiðslur til stjórnenda fyrirtækja og launakjör þeirra sem eru í engu samræmi við raunveruleika íslensk launafólks. Þetta kemur fram í ályktun ráðsins sem samþykkt var á fundi ráðsins nú rétt fyrir hádegi. Ráðið skorar á bæði fulltrúa launafólks og fulltrúa atvinnurekenda í stjórnum lífeyrissjóða að beita sér af fullum þunga gegn þessari óheillaþróun. Ráðið telur það ekki hlutverk lífeyrissjóða landsmanna að fjárfesta í fyrirtækjum sem sýna af sér algert siðleysi með því að greiða stjórnendum ofurlaun eða bónusa sem ekki eru boðnir almennum starfsmönnum fyrirtækjanna.“
Ályktun formannaráðs BSRB má lesa í heild sinni hér að neðan:
„Formannaráð BSRB fordæmir bónusgreiðslur til stjórnenda fyrirtækja og launakjör sem eru í engu samræmi við raunveruleika íslensks launafólks. Eftir að tekið var á bónusgreiðslum og ofurlaunum í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 virðist nú allt vera að færast í sama farið þar sem fyrirtæki umbuna stjórnendum með kjörum sem ofbjóða launafólki.
Formannaráðið skorar á fulltrúa samtaka launafólks og samtaka atvinnurekenda í stjórnum lífeyrissjóða að beita sér af fullum þunga gegn þessari þróun. Lífeyrissjóðir landsmanna eiga ekki að fjárfesta í fyrirtækjum sem sýna af sér algert siðleysi með því að greiða stjórnendum sínum ofurlaun eða bónusgreiðslur sem almennir starfsmenn sömu fyrirtækja njóta ekki.“