Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar spurði Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra út í það hvort ekki væri hægt að flýta endurskoðun lagarammans um Lánasjóð íslenskra námsmanna (LÍN) í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Í svörum Lilju kom fram að frumvarp þess efnis yrði ekki lagt fram fyrr en næsta vetur, eða haustið 2019.
Þorgerður Katrín sagði að þessu ætti að flýta og að það hefði komið henni á óvart að frumvarp um efnið hefði ekki verið á þingmálalista menntamálaráðherra á þessu þingi, þar sem nú þegar lægju fyrir gögn og greiningar til þess að ráðast í þá vinnu við breytingar á fyrirkomulagi LÍN sem stúdentar hafi lengi kallað eftir. Sakaði hún Lilju um aðgerðaleysi í málinu.
„Það er búið að rýna, að mínu mati, allt í drasl,“ sagði Þorgerður Katrín og bætti við að stúdentar kölluðu eftir svörum og fyrirsjáanleika. Ef að frumvarpið verður ekki lagt fram fyrr en næsta haust, sagði Þorgerður að lögin yrðu ekki að veruleika fyrr en veturinn 2020-21.
„Það er hægt að vinna heila háskólagráðu fram að þeim tíma, þannig að ég spyr ráðherra, er frumvarps ekki að vænta fyrr en á næsta ári? Er ekki hægt að hraða þessari mikilvægu vinnu?“
Mennta- og menningarmálaráðherra skipaði verkefnastjórn um endurskoðun laganna í mars á þessu ári, en hlutverk hennar er að skoða íslenska námslánakerfið í heild sinni og gera tillögur að umbótum þess og þróun.
Lilja sagði að vanda þyrfti til verka í þessu máli, sem væri erfitt og hefði reynst erfitt að „lenda“. Ráðherra sagði að hreinskiptar umræður færu fram í verkefnastjórninni, þar sem námsmenn eiga tvo fulltrúa, um það hvernig eigi að þróa LÍN til framtíðar.
„Það eru tveir ráðherrar búnir að gera atlögu við það að breyta lánasjóðnum og ástæða þess að mitt frumvarp kemur ekki fyrr en 2019 er vegna þess að ég er að reyna að læra af því sem miður fór,“ sagði Lilja og bætti við að það væru „blikur á lofti“ í þessum efnum og benti á að nú væri staðan sú að fleiri íslenskir stúdentar leituðu til norrænna lánasjóða en til LÍN.
Þorgerður Katrín gaf lítið fyrir svör ráðherra og sagði hana í raun vera að segja að stúdentar þyrftu að bíða og lét að því liggja að kannski væri það þannig að ráðherra hefði ekki „fullan stuðning ríkisstjórnarflokkanna til að keyra þessi mál í gegn“.
„Ég hvet ráðherra til dáða í þessu máli, stúdentar þurfa svör, ekki einhverja skreytni,“ sagði Þorgerður Katrín.