Árið 2002 var aðeins notast við reiðhjól í 0,8% af ferðum á höfuðborgarsvæðinu. Árið 2012 var hlutfallið komið upp í 4% og í fyrra var það um 7%. Á næstu 10 árum er líklegt að þetta hlutfall geti farið upp í 15% ef vel er haldið á spöðunum varðandi innviðauppbyggingu fyrir hjólandi umferð. Þetta segir Lilja Guðríður Karlsdóttir, samgönguverkfræðingur og framkvæmdastjóri Viaplan.
Lilja segir vaxandi áhuga á hjólreiðum sem samgöngumáta hafa í raun komið aftan að þeim sem sjá um og vinna að skipulagsmálum, bæði hér heima og erlendis á undanförnum árum. „Fyrir 10-15 árum sá fólk þennan vöxt ekki fyrir,“ segir hún og bætir við að rafmagnshjól og annað sem hafi gert hjólreiðar að meira aðlaðandi ferðamáta hafi breytt miklu. „Það var alltaf talað um rafbíla og snjallvæðinguna, en svo komu hjólin hægt og rólega,“ segir Lilja.
Á morgun fer fram ráðstefnan Hjólum til framtíðar í félagsheimilinu á Seltjarnarnesi, en það eru Hjólafærni og Landssamtök hjólreiðamanna sem hafa veg og vanda af ráðstefnunni í ár og verður Seltjarnarnesbær gestgjafinn. Lilja er meðal fyrirlesara og fjallar erindi hennar um sóknarfæri og framtíð hjólreiða.
Sjálf starfaði Lilja í sjö ár í Danmörku sem samgönguverkfræðingur og segir að ákveðin hugsun sem þar var við lýði hafi fylgt henni. „Hjólreiðar og gangandi umferð voru alltaf skoðuð fyrst og þegar þau mál voru leyst var svo farið að skoða hvernig leysa ætti mál tengd bílum,“ segir hún og bætir við að það hafi verið gríðarlega inngróið í Dani að huga vel að gangandi og hjólandi umferð.
Spurð hvað þurfi að hafa í huga ef auka eigi hlutdeild hjólreiða og gangandi enn frekar í umferðinni segir Lilja að fyrst og fremst þurfi að gera þessa ferðamáta einfalda og þægilega. Í dag sé mikið búið að laga, en enn sé langur vegur fram undan. Nefnir hún sem dæmi að þrátt fyrir talsverða uppbyggingu hjólastíga á höfuðborgarsvæðinu séu þeir enn brotakenndir en ekki mjög vel samhangandi.
„Hjólastígar hafa verið settir þar sem þægilegt er að setja þá, en við gatnamót er þetta oft mjög erfitt. Til dæmis vantar oftast ljós á gatnamótum fyrir hjólreiðafólk. Í grunninn þarf beinni leiðir,“ segir Lilja. Nefnir hún að á mörgum gatnamótum þurfi fólk fyrst að fara yfir eina akrein og þurfi þá að stoppa á umferðaeyju og bíða áður en það getur farið yfir hina akreinina. Bendir hún á að í Hollandi og Danmörku, þar sem hlutfall hjólandi í umferðinni er mjög hátt, séu bláar eða rauðar ræmur á götunum sem séu afmarkaðar fyrir hjólandi umferð. „Þetta segir hátt og skýrt að þarna séu hjól og þau eiga réttinn,“ segir Lilja. Telur hún að margt venjulegt fólk sem ekki sé mjög vant á hjólum veigri sér að fara yfir gatnamót þar sem það finni fyrir óöryggistilfinningu, en það sé einmitt hópurinn og massinn sem geti fjölgað verulega í hópi hjólreiðafólks.
Þá segir hún að víða erlendis sé verið að feta sig áfram í alls konar merkingum fyrir hjólreiðafólk sem auðveldi því að fara um. Í Noregi hafi til dæmis verið komið fyrir grænum ljósum á stígum þegar þú nálgast gatnamót. Er þá gefið í skyn með grænum blikkljósum hvort það sé líklegt að þú náir græna umferðarljósinu eða ekki.
Breytingar sem þessar verða að hennar sögn samt alltaf barátta. Þannig geti eitthvað eins einfalt og hjólastígur orðið mjög pólitískt, en slíkt hefur meðal annars komið upp þegar breytingar voru gerðar á Grensásvegi. Þá segir hún að þegar komi að framkvæmdum við hjólastíga og kostnaði við þá sé oft horft fram hjá því að í þeim tölum sé líka kostnaður við gangstétt og ýmislegt annað sem ekki sé beintengt hjólastígnum. Segir hún að kostnaður við upplýstan hjólastíg sé almennt talinn vera um 50-60 milljónir á kílómetra, en til samanburðar kosti kílómetri af vegi langtum meira og þegar komið sé upp í t.d. 2+1 veg fyrir utan borgarmörkin kosti slíkt um 500 milljónir á kílómetra og mislæg gatnamót kosti alla vega 1,5 milljarða.
Ríkið þarf að sögn Lilju einnig að koma meira að samgöngumálum sem ekki tengjast einkabílnum beint. Þannig sé hlutverk Vegagerðarinnar að mestu tengt vegum fyrir bíla en ekkert talað um hjólastíga. Vegagerðin hafi þó eitthvað á síðustu árum komið til móts við sveitarfélög varðandi kostnað á stígum meðfram stofnæðum, en mun meira þurfi að gera í þeim málaflokki. Nefnir hún tengingar milli bæjarfélaga. „Það þyrfti að endurskipuleggja hlutverk þeirra og fá Vegagerðina meira inn í almenningssamgöngur og hjólastíga,“ segir hún.
Hingað til hafi þetta verið að mestu á herðum sveitarfélaga og Reykjavík hafi þar dregið vagninn þó fleiri sveitarfélög séu að taka vel við sér á síðustu árum. Fyrir minni sveitarfélög úti á landsbyggðinni sé hins vegar óhugsandi að farið sé í slíkan kostnað nema Vegagerðin komi þar að.
Annað mikilvægt mál að sögn Lilju er að koma af stað ákveðinni hugarfarsbreytingu. Undanfarin ár hefur hún unnið víða að greiningum á landsbyggðinni og segir hún að ferðamynstur þar hafi komið sér nokkuð á óvart. Í grunninn gangi fleiri og hjóli þar en í höfuðborginni, en samt sem áður séu rosalega margir þar sem fari allra sinna ferða á bíl, jafnvel þótt öll þjónusta sé í 10 mínútna göngufæri. „Fólk er svo fast í vananum og hugsar ekki heldur fer bara beint út í bíl og keyrir af stað,“ segir Lilja. Hún segir stefnuna ekki eiga að vera að fá alla til að hætta að nota einkabílinn, heldur að fá fólk til að nota mismunandi ferðamáta, bæði eftir því hvað við á hverju sinni og svo sé líka heilsusamlegra að labba og hjóla inn á milli.