Fréttir oftast sóttar á fréttavefi

Helmingur landsmanna sækir fréttir helst af vefsíðum fréttamiðla.
Helmingur landsmanna sækir fréttir helst af vefsíðum fréttamiðla. mbl.is/Ómar Óskarsson

Helmingur landsmanna sækir helst fréttir af vefsíðum fréttamiðla. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar MMR sem var framkvæmd 3. til 10. ágúst.

Alls sögðust 18% helst sækja fréttir í sjónvarp og 9% í útvarp. Aðeins 4% kváðust helst sækja fréttir í dagblöð en 9% sækja fréttir helst af samfélagsmiðlum.

Konur voru líklegri en karlar til að sækja helst fréttir af samfélagsmiðlum. Aftur á móti sögðust fleiri karlar en konur sækja fréttir sínar af vefsíðum, þar á meðal fréttasíðum.

Ungt fólk sækir fréttir helst af vefsíðum fréttamiðla

Af ungu fólki á aldrinum 18-29 ára kváðust 62% helst sækja fréttir sínar af vefsíðum fréttamiðla, að því er kemur fram í tilkynningu MMR. Hlutfallið fór lækkandi í takt við hækkandi aldur því einungis 15% þeirra sem voru 68 ára og eldri kváðust helst sækja fréttir af vefsíðum fréttamiðla.

Svarendur elsta aldurshópsins sögðust helst sækja sér fréttir í sjónvarp (43%), útvarp (26%) eða dagblöð (12%).

Sjónvarpsmiðlar, útvarp og dagblöð eiga á brattann að sækja hjá ungu fólki, samkvæmt skoðanakönnuninni, því  aðeins 2% þeirra á aldrinum 18-29 ára kváðust helst sækja sér fréttir í sjónvarp, 1% í útvarp og 1% í dagblöð en 6% kváðust ekki fylgjast með fréttum.

Unga fólkið reyndist aftur á móti líklegra en aðrir aldurshópar til að sækja sér fréttir af samfélagsmiðlum en 17% þeirra 18-29 ára sögðust helst sækja sér fréttir í gegnum samfélagsmiðla og 8% þeirra 30-49 ára.

Af þeim sem lokið höfðu háskólamenntun kváðust 60% helst sækja sér fréttir af vefsíðum fréttamiðla, samanborið við 46% þeirra sem höfðu hæst lokið framhaldsskóla og 44% þeirra með grunnskólamenntun.

Stuðningsmenn Flokks fólksins sækir helst fréttir í útvarp  

Þegar litið var til stjórnmálaskoðana mátti sjá að 66% stuðningsfólk Pírata og 59% stuðningsfólks Viðreisnar sögðust helst sækja fréttir af vefsíðum fréttamiðla. Aðeins 35% af stuðningsfólki Flokks fólksins kvaðst helst sækja sér fréttir af vefsíðum fréttamiðla en 20% þeirra kváðust hins vegar helst sækja fréttir í útvarp og 11% í dagblöð.

Af stuðningsfólki Vinstri grænna kváðust 28% helst sækja fréttir í sjónvarp, samanborið við aðeins 9% stuðningsfólks Pírata. Þá var stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins (13%) líklegast til að sækja helst fréttir á samfélagsmiðla en stuðningsfólk Pírata (4%) og Samfylkingarinnar (3%) var líklegast til að segjast ekki fylgjast með fréttum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka