Myndi ríða rafrettuverslunum að fullu

Að sögn FA flytja flestar sérverslanir með rafrettur vörur sínar …
Að sögn FA flytja flestar sérverslanir með rafrettur vörur sínar inn sjálfar og algengt sé að sérverslanir hafi 800-1300 vörunúmer á boðstólum.

Félag atvinnurekenda (FA) krefst þess að reglugerð sem heilbrigðisráðherra setti í byrjun mánaðarins um rafrettur verði felld úr gildi. Þetta kemur fram í bréfi sem FA  hefur skrifað velferðarráðuneytinu, en  reglugerðin fjallar um tilkynningar til Neytendastofu um markaðssetningu rafrettna og áfyllinga fyrir rafrettur sem innihalda nikótín.

Samkvæmt reglugerðinni verða framleiðendur og innflytjendur rafrettna og áfyllinga fyrir þær að tilkynna Neytendastofu um allar vörur sex mánuðum áður en vörurnar eru settar á markað. Það er síðan Neytendastofu að taka afstöðu til þess hvort að varan uppfyllir öryggisstaðla og mun Neytendastofa rukka 75.000 kr. fyrir hverja tilkynningu.

FA segir rafrettur og áfyllingar hafa verið fluttar til landsins undanfarin  ár án þess að þurft hafi sérstakt leyfi eða að tilkynna innflutninginn. Í miklum meirihluta tilfella séu vörurnar engu að síður CE merktar, sem feli í sér að framleiðandi, innflytjandi eða dreifingaraðili vöru ábyrgist að hún uppfylli grunnkröfur um öryggi og almennt heilbrigði sem tilskipanir Evrópusambandsins kveða á um, og hafa vörurnar því undirgengist prófanir og eftirlit í því skyni

Lög sem taka eigi gildi í mars á næsta ári geri vörunar hins vegar tilkynningaskyldar til Neytendastofu og henni heimilað að innheimta gjald „til að standa undir kostnaði við móttöku þeirra og geymslu, meðhöndlun og greiningu upplýsinga sem hún tekur við.“

Að sögn FA flytja flestar sérverslanir með rafrettur vörur sínar inn sjálfar og algengt sé að sérverslanir hafi 800-1300 vörunúmer á boðstólum. „Að senda inn tilkynningu fyrir sérhverja vöru er því í fyrsta lagi yfirgengileg skriffinnska samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar og kostar í öðru lagi viðkomandi verslun 60-100 milljónir, sem allir sjá að myndi ríða slíkum rekstri að fullu,“ er haft eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda.

Einskis samráðs hafi hins vegar verið leitað við innflytjendur eða seljendur rafrettna við samningu reglugerðarinnar, sem virðist byggja á vanþekkingu á vöruúrvali í rafrettuverslunum. Segir Ólafur að ein reglugerðinni er stillt upp, þá sé um að ræða „tilraun heilbrigðisráðherra til að kæfa þessa atvinnugrein í fæðingu.“

Það sé ennfremur kaldhæðnislegt að á meðan einnig sé skylt að tilkynna um innflutning á tóbaki, þá sé ekkert gjald tekið fyrir þá tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert