Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur lokið við rannsókn bílsins sem keyrt var inn í kynlífshjálpartækjaverslunina Adam og Evu aðfaranótt föstudags. Lögregla verst þó allra fregna af því hverju sú rannsókn hefur skilað í tengslum við framgang málsins.
Bílnum, sem er af gerðinni Hyundai i10, var ekið með offorsi á útidyrahurð verslunarinnar um kl. 5:30 aðfaranótt föstudags. Þjófarnir, sem af upptökum að dæma eru tvær konur að mati lögreglu, fóru að því loknu inn og stálu þar sílikondúkkunni Kittý, sem og einhverju af titrurum og sleipiefni.
Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagðist í samtali við mbl.is í gær bjartsýnn á að þjófarnir finnist.