„Við þurfum sterkar heilbrigðisstofnanir og getum ekki svelt opinbera kerfið af því að aðrir þurfi á fé að halda,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun og játaði þeirri spurningu þáttastjórnandans Kristjáns Kristjánssonar að sjálfstætt starfandi sérfræðingar þurfi að koma þar á eftir.
Hún sé engu að síður sammála Hönnu Katrínu Friðriksson, þingmanni Viðreisnar sem einnig var í þættinum, að það sé mikilvægt að halda þekkingu í landinu.
Kvaðst Hanna Katrín vera þeirrar skoðunar að verið sé að byrja á öfugum enda með endurskoðun á stofnanasamningi við sérfræðilækna. „Ríkið er að greiða fyrir í öllum tilvikum og það þarf að gera kröfur i samræmi við stefnu og þarfagreiningu,“ sagði Hanna Katrín. Kostnaður vegna sérfræðilækna sé aðeins brotabrot af því sem fari í íslenska heilbrigðiskerfið, sem sé gott kerfi.
Sjálf hafi hún áhyggjur af því að það sé pólitísk sýn ráðherra að ríkið sinni þessu öll, frekar en að unnið verði að því að efla kerfið í heild sinni.
Svandís kvaðst sammála því að kerfið væri í grunninn gott, en engu að síður verði að bregðast við athugasemdum sem m.a hafi komið fram í skýrslum McKinsey og ríkisendurskoðunar. „Síðast þegar ég vissi var McKinsey ekki vinstri sinnað eða ríkisendurskoðun í Vinstri grænum,“ sagði Svandís. Báðir séu hlutlausir greinendur, sem tali einum rómi, um vanda sem íslenska heilbrigðiskrefið búi við.
„Í grunninn er kerfið sterkt, en erum til að mynda að horfa á eitt umfjöllunarefni sem eru biðlistar á aðra höndina og oflækningar á hina. Þá erum við ekki að ráðstafa þeim skynsamlega.“
Stjórnvöld þurfi að skerpa á því hvernig þau ráðstafi fé. „Það skiptir líka máli fyrir Viðreisn að hafa ekki áhyggjur af vinstri slagsíðu,“ sagði Svandís og nefndi að mönnunarvandinn í heilbrigðiskerfinu sé nokkuð sem fari vaxandi í framtíðinni. Það eigi ekki bara við um lækna, heldur líka um hjúkrunarfræðinga og annað starfsfólk.
„Við eldumst og lifum lengur og þá jafnvel með langvarandi sjúkdómum,“ sagði ráðherra og sagði einnig þurfa að ræða þessa þætti varðandi mönnun heilbrigðisþjónustunnar.
„Þessi sneið sem er nú mál málanna er í raun lítill hluti af öllu því sem er undir og má ekki yfirskyggja allt hitt,“ sagði Svandís og kvað þá íslensku sérfræðilækna sem hún hefði rætt við almennt vera sér sammála um að ráðstafa þurfi fé með markvissara hætti.