Friðað hús rifið fyrir helgi

Húsið að Laugavegi 74 áður en það var flutt út …
Húsið að Laugavegi 74 áður en það var flutt út á Granda fyrir rúmum áratug. mbl.is/Árni Sæberg

Friðað hús, sem áður var staðsett að Laugavegi 74 í Reykjavík, var rifið fyrir helgi en húsið hafði þá verið í geymslu á Granda í rúman áratug. Haft er eftir Guðnýju Gerði Gunnarsdóttur, minjaverði Reykjavíkur og nágrennis hjá Minjastofnun Íslands, í frétt Ríkisútvarpsins að ólöglegt sé að rífa friðað hús jafnvel þótt viðir úr því verði nýttir til að endurbyggja það.

Til stóð að rífa húsið, sem er frá árinu 1902, árið 2006 en ákveðið var að finna því annan stað þar sem það þótti heillegt. Húsið var flutt út á Granda í júní 2007 og voru uppi áform um að finna húsinu nýjan stað við Nýlendugötu. Reist var í kjölfarið nýtt hús að Laugavegi 74 í hliðstæðum stíl og forverinn. Gamla húsið varð hins vegar áfram á Granda.

Málið er í skoðun hjá Minjastofnun að sögn Guðnýjar en stofnunin frétti aðeins af því um helgina. Var þá farið á staðinn en húsið hafði þá þegar verið rifið. Eigendur hússins munu hafa gefið þær skýringar að það hefði skemmst í eldi og því verið ákveðið að rífa það. Hins vegar standi til að nota hluta af viðnum úr því til að endurbyggja húsið á nýrri lóð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert