Heimilum sem eru í vanskilum hefur fækkað mikið en ríflega þriðjungur heimila átti erfitt með að ná endum saman árið 2016 sem er mikil fækkun frá 2011 þegar um helmingur heimila átti erfitt með að ná endum saman. Þetta er meðal þess sem kemur í lífskjararannsókn Hagstofu Íslands fyrir árið 2016.
Þar kemur fram að sjö af hverjum hundrað heimilum höfðu ekki getað greitt húsnæðislán eða húsaleigu á réttum tíma einhvern tímann á síðastliðnum tólf mánuðum (2016) vegna fjárhagserfiðleika. Höfðu 8% heimila með börn verið í vanskilum með húsnæðiskostnað, um 7% með aðra heimilisreikninga, svo sem net eða rafmagnskostnað, og 9% verið í vanskilum á öðrum lánum en einungis 4% barnlausra heimila.
Um 13% heimila voru í einhvers konar vanskilum árið 2016 sem er töluverð fækkun frá árinu 2010 þegar þetta hlutfall var um 19%.
Þegar íbúar heimila eru skoðaðir kemur í ljós að í heild hefur hlutfall landsmanna í einhvers konar vanskilum minnkað úr 20% árið 2010 í 13% árið 2016. Þar sem heimili með börn eru hlutfallslega líklegri til að vera í einhvers konar vanskilum er hlutfallið hærra á meðal barna en þeirra sem eru 18 ára og eldri.
Árið 2016 reyndust 19% barna búa á heimilum í einhvers konar vanskilum á móti 12% fullorðinna. Það er töluverð breyting frá árunum eftir efnahagshrun þar sem hlutfall barna sem bjuggu á heimilum í einhvers konar vanskilum fór hæst í 28% árið 2011 á móti 18% fullorðinna.
Ríflega þriðjungur heimila á Íslandi, 36%, átti erfitt með að ná endum saman árið 2016 en það er talsverð fækkun frá 2011 þegar um helmingur heimila átti erfitt með að ná endum saman. Með sama hætti gat um þriðjungur heimila, 33%, ekki mætt óvæntum en nauðsynlegum útgjöldum árið 2016 án þess að grípa til sérstakra ráðstafana.