Bæjarstjórn Akraness fagnar þeim áfanga sem verður í lok þessa mánaðar, þegar Spölur skilar Hvalfjarðargöngum fullfjármögnuðum til ríkisins tuttugu árum eftir að göngin voru opnuð til umferðar 11. júlí 1998.
Þetta kemur fram í ályktun bæjarstjórnar Akraness.
Þar kemur enn fremur fram að göngin hafi verið gríðarleg samgöngubót fyrir alla landsmenn og hafi þau gjörbreytt forsendum fyrir þróun búsetu á Akranesi.
Bæjarstjórn færir forsvarsmönnum Spalar bestu þakkir fyrir framlag þeirra til samgöngusögu þjóðarinnar sem og þakkir til allra þeirra stórhuga sem komu að undirbúningi og framkvæmd verkefnisins og hafa staðið með því í gegnum þykkt og þunnt.
Auk þess brýnir bæjarstjórn Akraness ríkið til að huga að því að með sömu þróun umferðar verða Hvalfjarðargöng komin að mörkum leyfilegs umferðarmagns innan fárra missera og því þurfi að huga að undirbúningi nýrra Hvalfjarðarganga án tafar.