Verulegar athugasemdir eru gerðar við starfsemi siglingahluta Samgöngustofu í áfangaskýrslun starfshóps sveitarstjórnar- og samgönguráðuneytisins um störf og starfshætti Samgöngustofu. Samkvæmt birtum tölum Stjórnarráðsins hafa tólf ágreiningsmál komið upp vegna ákvarðana siglingahluta Samgöngustofu frá árinu 2013.
Sigurður Kári Kristjánsson, formaður starfshópsins, gagnrýndi í samtali við Morgunblaðið í gær að ekki hafi orðið framhald á störfum starfshópsins. Í samtali við Morgunblaðið í dag furðar Jón Gunnarsson, fyrrverandi sveitarstjórnar- og samgönguráðherra, sig á afdrifum skýrslunnar og að ekkert hafi verið gert í umræddum athugasemdum á því ári sem liðið er frá því að skýrslunni var skilað.
Meðal þess sem kemur fram um siglingahluta Samgöngustofu í skýrslunni er að ákvarðanir þar séu teknar eftir geðþótta starfsmanna og eftirlitið sé á skjön við það sem gengur og gerist í nágrannalöndunum. Segir að megn óánægja sé meðal fyrirtækja sem eiga í samskiptum við stofnunina en óánægjuna má meðal annars rekja til geðþóttaákvarðana starfsmanna sviðsins við yfirferð teikninga og annað eftirlit með skipum auk „séríslensks regluverks“ í tengslum við siglingamál hér á landi.
Segir í skýrslunni að oft sé óljóst á hvaða grunni kröfur stofnunarinnar hvíla að sögn viðmælenda starfshópsins sem sögðu starfsmenn siglingasviðsins reglulega setja fram nýjar kröfur á smíðatíma skipa með tilheyrandi kostnaði.
Eins og kom fram í samtali við Sigurð Kára í Morgunblaðinu í gær hafði starfshópurinn fengið á sinn fund um það bil 80 gesti. Meðal þeirra var sérfræðingur í skipasmíðum sem kvaðst hafa unnið við lengingu fimm nákvæmlega eins skipa sem smíðuð voru eftir flokkunarreglum Norske Veritas.
Tvö þeirra voru smíðuð í Noregi, tvö á Íslandi og eitt í Danmörku. Segir í skýrslunni að greiðlega hafi gengið að breyta skipunum undir eftirliti norska flokkunarfélagsins og dönsku siglingastofnunarinnar en annað hafi verið uppi á teningnum með samgöngustofu. „Engar fastar reglur virtust gilda og samskiptin einkenndust af seinagangi og hiki stofnunarinnar,“ segir í skýrslunni.
Stefán Guðmundsson, forstjóri hvalaskoðunarfyrirtækisins Gentle Giants á Húsavík, ber siglingasviði Samgöngustofu ekki góða söguna.
„Ég veit ekki um eitt einasta fyrirtæki sem segir farir sínar sléttar af þessari stofnun, og við erum að tala um ansi mikið af fyrirtækjum og einstaklinga,“ segir Stefán. „Og það er orðin algjör klassík, og hefur haft margar birtingarmyndir á siglingasviði, að ef einhver setur ofan í eða vogar sér að kvarta undan siglingasviðinu til samgönguráðherra eða ráðuneytis þá refsa embættismennirnir mönnum. Það er ótrúlega algengt inni á þessari stofnun,“ segir Stefán.
Að sögn Stefáns hefur ástandið farið versnandi ár frá ári. „Þetta hefur farið hraðversnandi, og menn tala um að þegar þessar stofnanir voru sameinaðar hafi þetta mögulega unnið sér inn titilinn versta sameining stofnana í allri Íslandssögunni. Siglingastofnun fór úr öskunni í eldinn.“
„Þetta bitnar þannig á fyrirtækjum að það eru jafnvel settar nýjar heimatilbúnar reglur sem standast enga skoðun, og þær eru allar meira og minna íþyngjandi, verulega. Það er fullt af fyrirtækjum sem kikna undan því og hafa ekki bolmagn til að hreyfa við mótmælum eða kærum.“
Gentle Giants er einn fjölmennasti vinnustaðurinn á Húsavík með 50 starfsmenn og níu báta, þar af fimm svokallaða Rib-báta sem fyrirtækið notar til hvalaskoðunar. „Þetta blessaða siglingasvið skoðar alla farþega á Íslandi með tilliti til úr hverju þeir eru gerðir, hvað þeir eru stórir, fjölda sæta, björgunarbúnaðar og hæfni hvers báts til að sinna sínu. En það er bara til einn stimpill á Rib-báta,“ segir Stefán um dæmi þess hvernig hann hafi staðið í deilum við stofnunina.
„Það skiptir engu hvernig Rib-báturinn er gerður, hversu stór hann er, sætafjöldi, björgunarbúnaður eða hvernig hann er búinn tólum og tækjum. Þetta er svipað og að allar rútur á Íslandi sem heita Scania fái bara leyfi til að flytja tólf manns burtséð frá öllu öðru. Okkar bátar hafa allir 24 til 26 sæti en við megum bara flytja tólf. Ég held að það sé einsdæmi á heimsvísu að það gildi einar skoðunarreglur fyrir farþegaskip og svo engar skoðunarreglur fyrir önnur farþegaskip.“
Þá nefnir Stefán lögskráningarkerfið sem er á vegum Samgöngustofu en ætti að vera hjá Landhelgisgæslunni. „Landhelgisgæslan er með vakt allan sólarhringinn og það eru fræg dæmi um að lögskráningarkerfið hafi legið niðri frá föstudegi til mánudags og enginn starfsmaður verið á vakt hjá Samgöngustofu til að kippa því í liðinn,“ segir Stefán og bætir við að fyrirtæki sigli þá jafnvel með þúsundir farþega sem alla jafna ættu ekki að komast á sjó því kerfi stofnunarinnar liggi niðri.
Í áfangaskýrslunni kemur einnig fram að gera þurfi aðkallandi breytingar á lögskráningarkerfinu þar sem það hafi verið byggt í kringum sjómennsku og henti því illa ferðaþjónustufyrirtækjum þar sem skrá þurfi oft og tíðum sömu áhafnir á ólík skip innan sama dags, en kerfið býður ekki upp á slíkt.
Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, segir í skriflegu svari til mbl.is að stofnunin hafi þegar svarað öllum atriðum sem komi fram í áfangaskýrslunni með minnisblaði til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins sl. vor og telur stofnunin að verkefninu sem hrundið var af stað í tíð fyrri ráðherra lokið.
Segir hún að í skýrslunni sé vegið að starfsheiðri sérfræðinga Samgöngustofu hvað varðar eftirlit með skipum, og að fullyrðingar um geðþóttaákvarðanir eigi ekki við rök að styðjast.
„Starfsmenn Samgöngustofu sem vinna við eftirlit með skipum eru allt sérfræðingar á sínu sviði og hafa áratuga reynslu og þekkingu á tæknimálum skipa. Þeir starfa eftir þeim reglum sem á Íslandi gilda og byggja flestar á alþjóðlegum kröfum,“ segir hún í svari sínu til mbl.is.
„Niðurstöður stofnunarinnar í einstaka málum eru ekki ávallt í takt við væntingar viðskiptavina en í langflestum tilvikum er sátt um niðurstöður þegar kröfur hafa verið útskýrðar eins og þörf krefur í hverju tilviki,“ segir Þórhildur.