„Skýrslan sem hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins var hér að afhenda formanni Sjálfstæðisflokksins og var greidd af almannafé dýru verði, fjallar um sakleysi Sjálfstæðisflokksins,“ sagði Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingar, á Alþingi í dag.
Þar fjallaði hann um skýrslu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins en Hannes afhenti Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra skýrsluna í gær.
Guðmundur sagði að mynd þar sem sjá má Hannes afhenda Bjarna skýrsluna lýsa eindrægni og sátt. Hann segir að skýrslan fjalli sérstaklega um hvernig hrunið hafi ekki verið Sjálfstæðisflokknum að kenna, flokknum sem stýrði efnahagsmálum þjóðarinnar öll bóluárin.
„En einkum og sér í lagi og alveg sérstaklega sé hrunið ekki fyrrum formanni Sjálfstæðisflokksins að kenna. Hrunið var heldur ekki bankamönnum að kenna. Hrunið var öðrum að kenna, fyrst og fremst þeim ríkjum þar sem útrásarvíkingarnir okkar hösluðu sér völl,“ segir Guðmundur. Hann bætir við að þau sem starfi nú í stjórnmálum séu hvorki betri né gáfaðri en þau sem sinntu slíkum störfum á árunum fyrir hrun.
„Það sem við höfum hins vegar fram yfir þau er vitneskjan um þær hörmungar sem reiðareksstefnan í efnahagsmálum og hömlulaus auðhyggja kallaði yfir land og þjóð. Það er mjög mikilvægt að við drögum réttar ályktanir af þessum atburðum, en það verður ekki gert með því að lesa varnarræður gamalla hrunkvöðla jafnvel þótt greitt sé fyrir af almannafé.“