Dómur Hæstaréttar: „Sýknaðir af sakargiftum“

Frá aðalmeðferð málsins í Hæstarétti fyrr í þessum mánuði.
Frá aðalmeðferð málsins í Hæstarétti fyrr í þessum mánuði. mbl.is/​Hari

Fimm dómarar í Hæstarétti komust í dag að þeirri niðurstöðu að sýkna bæri Kristján Viðar Júlíusson, Sævar Marinó Ciesielski, Tryggva Rúnar Leifsson, Albert Klahn Skaftason og  Guðjón Skarphéðinsson af öllum sakargiftum í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Þá greiðist allur áfrýjunarkostnaður málsins úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjenda í málinu, alls um 55 milljónir kr. 

Að því er kemur fram í dómnum sem hefur verið birtur á vef Hæstaréttar.

Það var í höndum hæstaréttardómaranna Þorgeirs Örlygssonar, Gretu Baldursdóttur, Helga I. Jónssonar, Ólafs Barkar Þorvaldssonar og Viðars Más Matthíassonar að endurmeta dóminn sem féll árið 1980. Málið var fyrir margar sakir óvenjulegt, ekki síst af því að ákæruvaldið krafðist einnig sýknu, en sýknukrafa ákæruvaldsins byggði bæði á nýjum gögnum og endurskoðuðu mati á eldri gögnum sem gerði það að verkum að ekki hefði tekist að sanna sekt þeirra svo hafið væri yfir skynsamlegan vafa.

Það braust út fögnuður meðal aðstandenda þegar dómurinn hafði verið …
Það braust út fögnuður meðal aðstandenda þegar dómurinn hafði verið kveðinn upp í Hæstarétti í dag. mbl.is/​Hari

Með dómi réttarins í febrúar 1980 voru Kristján Viðar, Sævar Marinó og Tryggvi Rúnar sakfelldir fyrir manndráp með því að hafa orðið Guðmundi Einarssyni að bana í janúar 1974. Jafnframt var Albert Klahn sakfelldur fyrir að hafa tálmað rannsókn málsins með háttsemi sinni umrætt sinn. Þá voru Guðjón Skarphéðinsson, Kristján Viðar og Sævar Marinó sakfelldir fyrir að hafa orðið Geirfinni Einarssyni að bana í nóvember 1974.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að Sæv­ar hafi verið ákærður fyr­ir að bana báðum mönn­un­um, Guðmundi og Geirfinni, og hlaut þyngst­an dóm í mál­inu, eða 17 ára fang­elsi. Kristján Viðar var ákærður fyr­ir að bana Geirfinni og hlaut sex­tán ára dóm. Tryggvi Rún­ar var dæmd­ur fyr­ir að hafa banað Guðmundi og hlaut 13 ára dóm. Guðjón var ákærður fyr­ir að bana Geirfinni og fékk tíu ára dóm. Al­bert var ákærður fyr­ir að tálma rann­sókn og fékk tólf mánaða dóm. Erla Bolla­dótt­ir var dæmd fyr­ir aðild að hvarfi Geirfinns og fyr­ir að bera rang­ar sak­argift­ir upp á fjóra menn. Hún hlaut þriggja ára dóm.

Upphaflegi dómurinn féll í Hæstarétti fyrir 38 árum.
Upphaflegi dómurinn féll í Hæstarétti fyrir 38 árum.

Endurupptökunefnd féllst á beiðnir fimmmenninganna um að taka málið upp að hluta og taldi Hæstiréttur að hvorki væru sérstakir annmarkar á málsmeðferð endurupptökunefndar né mati hennar á þýðingu nýrra gagna.

Af hálfu ákæruvaldsins var þess krafist að dómfelldu yrðu sýknaðir af þeim sakargiftum sem þeir voru sakfelldir fyrir með fyrri dómi Hæstaréttar í málinu og endurupptaka málsins tók til.

Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að það leiddi af lögum að dómfelldu yrðu þegar á grundvelli kröfugerðar ákæruvaldsins sýknaðir af þessum sakargiftum.  

Lögmenn sakborninga í Hæstarétti.
Lögmenn sakborninga í Hæstarétti. mbl.is/​Hari

Í dómi Hæstaréttar segir, að Kristján Viðar, Sævar Marinó og Tryggvi Rúnar séu sýknir af 1. lið I. kafla ákæru 8. desember 1976 um brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 27. janúar 1974 í félagi ráðist á Guðmund Einarsson í kjallaraíbúð að Hamarsbraut 11, Hafnarfirði, og misþyrmt honum svo, að hann hlaut bana af, og komið líki hans fyrir í ókunnum stað.

Þá er Albert Klahn sýkn af 2. lið I. kafla ákæru 8. desember 1976 um brot gegn 2. mgr. 112. gr. almennra hegningarlaga, fyrir að tálma rannsókn á fyrrnefndu broti Kristjáns, Sævars og Tryggva Rúnars, með því að veita dómfelldu liðsinni við að fjarlægja og koma líki Guðmundar fyrir í hrauninu sunnan Hafnarfjarðar aðfaranótt 27. janúar 1974.

Kristján Viðar, Sævar Marinó og Guðjón Skarphéðinsson eru sýknir af I. kafla ákæru 16. mars 1977 um brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 20. nóvember 1974 í félagi ráðist á Geirfinn Einarsson í dráttarbrautinni í Keflavík og misþyrmt honum þar svo, að hann hlaut bana af og að hafa flutt lík Geirfinns þaðan á Grettisgötu 82, Reykjavík, og að hafa degi síðar flutt líkið upp í Rauðhóla og grafið það þar.

Þá kemur fram að allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjenda í málinu, lögmannanna Jóns Steinars Gunnlaugssonar, verjanda Kristjáns Viðars, 11.904.000 krónur, Oddgeirs Einarssonar og Unnars Steins Bjarndal, verjenda Sævars Marinós, 11.904.000 krónur til hins fyrrnefnda og 2.480.000 krónur til hins síðarnefnda, og Jóns Magnússonar, verjanda Tryggva Rúnars, Guðjóns Ólafs Jónssonar, verjanda Alberts Klahn og Ragnars Aðalsteinssonar, verjanda Guðjóns, 9.672.000 krónur til hvers um sig. 

Dómur Hæstaréttar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert