Eignarhaldsfélagið Spölur hf., Spölur ehf., samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið hafa lokið gerð samnings um afhendingu á Hvalfjarðargöngum til ríkisins.
Gjaldtöku verður hætt skömmu eftir kl. 13 næstkomandi föstudag.
Formleg afhending þeirra og undirritun samningsins verður við norðurmunna Hvalfjarðarganga sunnudaginn 30. september kl. 15, að því er kemur fram í tilkynningu frá Speli.
Fram kom fyrr í mánuðinum að Spölur stefndi að því að afhenda Vegagerðinni Hvalfjarðargöng til eignar og rekstrar 30. september. Innheimtu veggjalds yrði þá hætt föstudaginn 28. september.
Tekið var fram að tímasetningin hafi verið kynnt að þeim forsendum gefnum að ríkisskattstjóri féllist á tiltekna meðferð á skattalegri afskrift ganganna og í öðru lagi að Samgöngustofa skilaði fyrirvaralausri úttekt á göngunum í aðdraganda eigendaskiptanna.