„Mér líður ofsalega vel en ég er ofsalega fegin að þetta er búið,“ segir Sjöfn Sigurbjörnsdóttir, ekkja Tryggva Rúnars Leifssonar, sem í dag var sýknaður af því að hafa banað Guðmundi Einarssyni í janúar árið 1974, ásamt Sævari Ciesielski. „Þetta er búið að að vera í fanginu á mér í mjög mörg ár,“ bætir hún við. Allir dómfelldu í málinu voru sýknaðir í Hæstarétti í dag, 44 árum eftir að meintur glæpur var framinn. Tryggvi hafði áður verið dæmdur í 13 ára fangelsi fyrir aðild sína að málinu.
Sjöfn bendir á að sumum þyki réttlætinu enn ekki fullnægt, en hún er sátt. Hún hafði alla vega ekki vonast eftir neinu öðru en að Tryggvi Rúnar og aðrir dómfelldu yrðu sýknaðir í málinu.
„Þetta er það sem ég fór af stað með og var ekki að hugsa um neitt annað. Ég var bara að hugsa um mannorð hans og hann,“ segir Sjöfn, en henni finnst mannorð Tryggva Rúnars nú hafa verið hreinsað.
„Auðvitað ber einhver ábyrgð á þessu. Það ætti alla vega að vera þannig. En ég er ánægð með þetta svona núna.“