Spurði hvort krafist yrði afsökunarbeiðni

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjármálaráðherra útilokar ekki að skýrsla Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar prófessors um erlenda áhrifavalda bankahrunsins haustið 2008 gefi tilefni til þess að taka upp þráðinn í einhverjum tilfellum við erlenda ráðamenn en sagðist hins vegar í svari við fyrispurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, ekki vera tilbúinn til þess að úttala sig um það hvaða mál nákvæmlega gætu þar komið til álita.

Sigmundur Davíð gerði skýrsluna að umtalsefni sínu á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins og mögulegt framhald málsins. Sagði hann vinstrimenn hafa það helst út á málið að setja að skýrsla um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins fjallaði of mikið um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins en minna um þeirra eigin skoðanir á innanlandspólitík. Ennfremur hafi þeir séð ástæðu til þess að hnýta í persónu höfundar skýrslunnar.

Sagði Sigmundur þetta gjarnan sama fólkið og teldi annars algerlega óforsvaranlegt að gagnrýna fræðimenn. Það ætti þó væntanlega aðeins við um „nógu vinstrisinnaða fræðimenn.“ Spurði hann Bjarna hvernig hann ætlaði að fylgja eftir niðurstöðum skýrslunnar. „Verða þessi mál tekin upp við fulltrúa erlendra ríkja og alþjóðastofnana og verður til að mynda farið fram á afsökunarbeiðni frá breskum stjórnvöldum?“

Þurfti að fylla inn í heildarmyndina

Bjarni sagði umræðuna um bankahrunið mest hafa snúist um innlenda áhrifavalda og fyrir vikið hafi hann talið þörf á að gera úttekt á erlendum áhrifavöldum í þeim efnum. Mikilvægt hefði verið að fylla inn í heildarmyndina með þeim hætti. Sigmundir nefndi bresk stjórnvöld sérstaklega og sagði Bjarni ljóst að þar hefðu bankar í íslenskri eigu verið felldir að ástæðulausu og nefndi Singer & Friedlander og Heritable Bank.

Hannes Hólmsteinn afhenti Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra, skýrsluna í vikunni.
Hannes Hólmsteinn afhenti Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra, skýrsluna í vikunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvað varðar Bretland sjáum við í skýrslunni samantekt um að þeir bankar sem voru felldir þar, Singer & Friedlander og Heritable bankinn, voru alls ekki í neinum greiðsluvanda og greiddu til baka skuldir sínar ólíkt mörgum bönkum sem bjargað var og voru í miklu verri stöðu,“ sagði fjármálaráðherra. Sigmundur ítrekaði spurningu sína um það með hvaða hætti Bjarni sæi fyrir sér að fylgja niðurstöðum skýrslunnar eftir.

„Fyrst við erum sammála um mikilvægi þess sem þarna er haldið til haga og fjallað mjög ítarlega um og færð í mörgum tilvikum mjög sterk rök fyrir, er þá ekki nauðsynlegt að mati hæstvirts ráðherra að fylgja málinu eftir? Til dæmis með formlegum athugasemdum við hlutaðeigandi aðila, hvort sem það eru fulltrúar erlendra ríkja eða fulltrúar alþjóðastofnana sem var jafnvel misbeitt eins og fram kemur í skýrslunni.“

Tilgangslaust að benda á liðna atburði

Spurði Sigmundur aftur sérstaklega um Bretland í þessu sambandi. Bjarni svaraði því til að sumt af því sem rætt væri um í skýrslunni væru liðnir aðburðir og það þjónaði litlum tilgangi að reyna að benda á að hlutirnir hefðu verið með einhverjum hætti. Til dæmis varðandi aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að málum hér á landi enda væru lánin frá sjóðnum endurgreidd. Annað sneri að tjóni einkaaðila.

„Síðan eru hlutir sem varða beint samskipti við erlend stjórnvöld. Ég vil halda því til haga í þessari umræðu að við höfum í gegnum tíðina margoft haft uppi athugasemdir til dæmis gagnvart breskum ráðamönnum vegna þeirrar framgöngu sem Ísland varð fyrir af þeirra hálfu á sínum tíma,“ sagði Bjarni. Það hefði hann sjálfur gert við mörg tækifæri.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert