Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands beðið fyrrverandi sakborninga, aðstandendur þeirra og aðra sem hafa átt um sárt að binda vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálsins, afsökunar á því ranglæti sem þeir hafa mátt þola.
Tilefni yfirlýsingarinnar er nýfallinn sýknudómur Hæstaréttar í málum allra dómfelldu í endurupptökumáli í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.
Dómurinn féll í gær en hann var ræddur á fundi ríkisstjórnarinnar í dag. Í tilkynningu segir að ríkisstjórnin fagni málalyktum í einu umdeildasta sakamáli Íslandssögunnar.
„Fyrir hönd ríkisstjórnarinnar bið ég ykkur afsökunar á því ranglæti sem þið hafið mátt þola,“ segir í yfirlýsingu Katrínar.