Engar framkvæmdir eru fyrirhugaðar í Víkurgarði, sem einnig er þekktur sem Fógetagarður, segir í athugasemd frá eiganda Landsímareitsins, Lindarvatni.
„Að gefnu tilefni er því komið á framfæri að engar framkvæmdir eru fyrirhugaðar í Víkurgarði, sem einnig er þekktur sem Fógetagarður. Engar heimildir eru til að reisa byggingar í garðinum eða gera breytingar á honum að öðru leyti,“ segir í athugasemd frá Lindarvatni, sem er eigandi fasteigna á Landssímareitnum við Austurvöll (Aðalstræti 7 og 11, Thorvaldsensstræti 2, 4 og 6 og Vallarstræti 2 og 4).
„Opinber gögn staðfesta að engar framkvæmdir eru fyrirhugaðar í Víkurgarði. Slíkar framkvæmdir hafa aldrei staðið til. Eins og sjá má á deiliskipulagi Kvosarinnar eru engar breytingar fyrirhugaðar í Víkurgarði. Allar fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu fara fram á Landssímareitnum, en ekki í Víkurgarði. Allt frá árinu 1988 hefur samkvæmt deiliskipulagi verið gert ráð fyrir nýbyggingu á Landssímareitnum að Kirkjustræti, þar sem áður stóð bílastæði Pósts og síma. Samkvæmt aðaluppdráttum, sem liggja til grundvallar byggingarleyfi, eru engar breytingar fyrirhugaðar í Víkurgarði.
Árið 2016 var framkvæmd fornleifarannsókn á Landssímareitnum sem leiddi í ljós að minjar á reitnum höfðu því miður nær allar verið eyðilagðar í framkvæmdum frá seinni hluta 19. aldar og til þess tíma. Fornleifarannsóknina annaðist Vala Garðarsdóttir, fornleifafræðingur, undir eftirliti Minjastofnunar.
Líkt og Vala hefur bent á í skrifum sínum hefur reiturinn verið notaður undir prentsmiðju, verslun, embættisbústaði, skrúðgarð, bragga, apótek, lyfjagerð, kamra, brunna, símastrengi, kapla, dren, ræsi, hitaveitu og ljósleiðara. Vitað er að kjallari var byggður á reitnum árin 1830, 1882 og 1915 og eins og flestir núlifandi menn muna var á Landssímareitnum lagt bílastæði árið 1967, samhliða því að viðbyggingin við gamla Landssímahúsið var reist.
Öllum minjum með varðveislugildi hefur verið komið á Þjóðminjasafnið, þar sem þær eru rannsakaðar frekar,“ segir enn fremur í athugasemdinni.