Enn einu skattabrotinu vísað frá

Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms og vísaði málinu frá.
Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms og vísaði málinu frá. mbl.is/Hjörtur

Landsréttur staðfesti á fimmtudaginn úrskurð héraðsdóms um að vísa frá skattabroti sem ákæruvaldið hafði höfðað gegn fyrrverandi heildsala sem í dag er á áttræðisaldri. Var hann sakaður um að hafa svikið um 38 milljónir undan skatti með því að hafa ekki talið fram fjármagnstekjur upp á 376 milljónir á árunum 2006 til 2008. Voru tekjurnar komnar til vegna uppgjörs á 279 framvirkum samningum .

Málið er eitt af 150 málum sem voru til meðferðar hjá héraðssaksóknara og tekist var á um tvöfalda refsingu, annars vegar hjá skattayfirvöldum og hins vegar hjá ákæruvaldinu. Voru 62 málanna felld niður í fyrra eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar í maí í fyrra.

Var þetta mál eitt þeirra sem ákæruvaldið hélt áfram með, en fleiri slíkum hefur verið vísað frá þar sem málin hjá réttarvörslukerfinu og skattayfirvöldum voru talin ótengd í tíma þannig að um ítrekaða málsmeðferð væri að ræða. Meðal annars var einu 900 milljón króna skattabroti vísað frá með vísun í dóm Mannréttindadómstólsins.

Það sama á við í þessu tilfelli og hafði héraðsdómur úrskurðað um það í maí á þessu ári. Ákæruvaldið kærði þann úrskurð til Landsréttar sem staðfesti nú niðurstöðu héraðsdóms.

Samkvæmt því sem fram kemur í úrskurði Landsréttar hafði manninum verið gert af skattayfirvöldum að greiða vantalda upphæð auk 25% álagningar. Staðfesti yfirskattanefnd þá niðurstöðu með þeirri breytingu að hægt væri að draga frá kostnað við samningana.

Lesa má úrskurð Landsréttar í heild sinni hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert