Fær bætur fyrir vist í fangaklefa

Maðurinn var 13 klukkustundir í fangaklefa á lögreglustöðinni við Hverfisgötu.
Maðurinn var 13 klukkustundir í fangaklefa á lögreglustöðinni við Hverfisgötu. mbl.is/Golli

Íslenska ríkinu var í gær gert að greiða manni 100 þúsund krónur í miskabætur en maðurinn sat í fangaklefa í kjölfar handtöku í 13 klukkustundir í desember 2012. Taldi dómari að ekki hafi verið sýnt fram á nauðsyn þess að halda manninum svo lengi.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að maðurinn hafi verið handtekinn grunaður um heimilisofbeldi. Segir í niðurstöðu dómsins að eiginkona mannsins hafði stuttu áður en lögregla kom á heimili þeirra hringt í Neyðarlínuna og sambandið rofnað. Þá liggur fyrir að maðurinn var ölvaður og hafði áður rifist við föður sinn, sem býr í sama húsi, sem og eiginkonu sína. Aðila greinir verulega á um málsatvik eftir að lögregla kom á vettvang.

Fyrir liggur að lögregla beitti úðavopni og kylfu gegn manninum áður en til handtöku kom en hann hafði veist að lögreglu og streist á móti handtöku. Ekki var fallist á að lögregla hafi gengið lengra í valdbeitingu en nauðsynlegt var og handtaka hafi af hálfu lögreglu ekki falið í sér meira harðræði en nauðsyn bar til vegna þeirra aðstæðna sem voru uppi.

Taldi dómarinn að handtökuna mætti alfarið rekja til háttsemi mannsins og eru því ekki skilyrði að lögum til þess að hann geti krafist bóta úr hendi stefnda vegna handtökunnar.

Að sögn dómara er hvorki að finna í skýrslu lögreglu né öðrum gögnum upplýsingar um ástand mannsins eða um aðstæður sem leiddu til þess að ekki var unnt að láta hann lausan fyrr.

Fyrir liggur að ekki var tekin skýrsla af honum vegna þess gruns um heimilisofbeldi sem var tilefni handtöku hans. „Verður raunar ekki séð að gerð hafi verið tilraun til þess, hvorki í kjölfar handtöku stefnanda né morguninn eftir þegar hann vaknaði á lögreglustöð. Ölvunarástand stefnanda við handtöku virðist ekki hafa ráðið þar úrslitum. Þá er ekkert fram komið sem styður að ástand stefnanda hafi að öðru leyti staðið í vegi fyrir því að unnt væri að láta hann lausan fyrr, en það fellur í hlut stefnda að sýna fram á slíkt. Að teknu tilliti til þessa var stefnandi sviptur frelsi lengur en efni stóðu til,“ segir í dómi héraðsdóms í gær.

Ríkissjóði er jafnframt gert að greiða málskostnað mannsins, alls 710 þúsund krónur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert