Það var 6. mars í fallegu vetrarveðri sem Hafdísi Guðrúnu Hilmarsdóttur, þá í annarri Esjuferð ársins, datt í hug að fara hundrað sinnum á Esjuna á árinu. Í dag fór hún hundruðustu ferðina, en ekki þá síðustu á árinu.
„Ég ákvað í algjöru bjartsýniskasti í Esjugöngu 6. mars að það gæti verið rosalega sniðugt að gera þetta hundrað sinnum á árinu,“ segir Hafdís í samtali við mbl.is og hlær. Gönguferðirnar voru þó ekki bara „út í loftið“ heldur voru þær liður í undirbúningi Hafdísar fyrir mikla þrekraun í Ölpunum.
„Í febrúar skráði ég mig í 95 kílómetra hlaup í frönsku Ölpunum sem fór fram í lok ágúst. Ég ákvað að vera dugleg að fara á Esjuna í aðdraganda þess.“
Hafdís og Jóda Elín Valgerður Margrétardóttir hlupu 95 km hlaup með 5.500 metra hækkun í Ölpunum 25. ágúst og Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé hljóp 169 km hlaup með 11.000 metra hækkun.
Hafdís hafnaði í fyrsta sæti í sínum aldursflokki en hún tók þátt í 95 km hlaupi sem hún kláraði á 18 klukkustundum, sjö mínútum og 22 sekúndum. Í hlaupinu var m.a. farið um fjallatindana Sous l‘Echaillen, Grand Colon og Chamechaude.
Fyrir afrekið í Ölpunum hafði Hafdís farið 89 sinnum á Esjuna á árinu. „Ég fór 50. ferðina í lok maí og þá var nokkur hópur fólks sem vildi koma með. Sama var uppi á teningnum í dag en það voru um 50 manns með mér í hóp í dag,“ segir Hafdís sem er himinlifandi með daginn:
„Þetta var ótrúlega skemmtilegt.“
Þrátt fyrir að hafa lokið 100 ferðum upp að steini á Esjunni á árinu segist Hafdís ekki vera hætt. „Ég á eftir að fara fleiri ferðir, ég á eftir að fara ansi oft í viðbót,“ segir Hafdís og hlær þegar hún er beðin um nýtt markmið yfir Esjuferðir ársins:
„Ég ætla ekki að segja neitt svoleiðis.“
Hafdís vill auk þess benda á undirskriftasöfnun þar sem Reykjavíkurborg er hvött til þess að koma almenningssalerni fyrir við Esjurætur.