Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, rifjaði upp í ræðustól á Alþingi á miðvikudaginn, undir dagskrárliðnum störf þingsins, að Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis og fyrrverandi fjármálaráðherra, hefði þann 6. mars 2009 skrifað undir reglur um ferðakostnað á vegum hins opinbera.
Orðrétt sagði Björn Leví m.a.: „Í 6. gr. segir að af dagpeningum beri að greiða allan venjulegan ferðakostnað annan en fargjöld, m.a. ferðakostnað til og frá flugvöllum. Í 7. gr. segir að styrkir og hvers konar hlunnindi varðandi gistingu og fæði sem ríkisstarfsmenn njóta meðan á dvölinni stendur skuli koma til frádráttar almennum dagpeningagreiðslum eftir á.
Ég spurði fyrir nokkru um hversu háar þessar endurgreiðslur hefðu verið. Svarið var að hefð hefði ekki skapast fyrir því að leggja sérstakt mat á umfangið þannig að það hefði leitt til frádráttar frá almennum dagpeningagreiðslum. Þegar ég spurði í ferðakostnaðarnefnd hverju þetta sætti, hvort fólk vissi ekki hvað hádegismatur kostaði, var svarið einfaldlega nei,“ segir Björn í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.