Kostnaður Alþingis vegna farsíma og netteninga þingmanna, starfsmanna þingflokka og starfsliðs Alþingis hefur dregist saman um rétt rúmlega 50% síðan árið 2013. Ástæða þess er meðal annars sú að verð fyrir þessa þjónustu hefur lækkað og meira er innifalið þegar keypt er fjarskiptaþjónusta en áður.
Samtals greiddi Alþingi 109,6 milljónir í fjarskiptakostnað fyrir umrædda hópa á árunum 2013 til og með 2017. Þetta kemur fram í svari forseta Alþingis við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Vinstri grænna.
Kostnaðurinn var mestur árið 2013 þegar Alþingi greiddi samtals 28,3 milljónir í þessa þjónustu. Stærstur hluti var vegna Alþingismanna, eða 17,7 milljónir. Greidd voru 1,1 milljón vegna starfsliðs þingflokka og formanna flokka og 9,5 milljónir vegna starfsliðs Alþingis.
Ári seinna var kostnaðurinn svipaður, eða 28,2 milljónir. Hafði kostnaður vegna þingmanna og starfsliðs þingflokka lækkað, en kostnaðurinn vegna starfsliðs Alþingis hækkað um rúmlega eina milljón.
Árin 2015 og 2016 hélt upphæðin áfram að lækka og var komin niður í 17,7 milljónir árið 2016. Í fyrra fór þessi kostnaður svo niður í 14,1 milljón og hafði því rúmlega helmingast síðan árið 2013. Var kostnaður þingmanna kominn í 8,4 milljónir og hafði meira en helmingast.
Á þessum fimm árum hefur Alþingi greitt 69,4 milljónir vegna fjarskiptakostnaðar þingmanna. 3,7 milljónir fyrir starfslið þingflokka og formenn flokka og 36,6 milljónir fyrir starfslið Alþingis.
Síminn er það fjarskiptafyrirtæki sem þingmenn, starfslið þingflokka og starfsfólk Alþingis nota lang mest, en rúmlega þrír fjórðu hlutar þeirra 109,6 milljóna sem greiddar hafa verið var til Símans, samtals 84,2 milljónir. Kostnaður starfsliðs þingflokka hækkaði um 200 þúsund frá fyrra ári, en hefur lækkað um tæplega 30% frá árinu 2013 og kostnaður starfsliðs Alþingis var 5 milljónir og hefur tæplega helmingast.
Það fjarskiptafélag sem hefur fengið næst hæstu upphæðina er Vodafone, en á tímabilinu greiddi Alþingi því félagi 19,3 milljónir vegna þessarar þjónustu.
Í svari forseta Alþingis kemur fram að Alþingi taki ekki ákvörðun um val á þjónustuaðila fyrir þingmenn, en að Síminn hafi verið valinn fyrir starfsfólk eftir verðkönnun fyrir nokkrum árum.