Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fundaði í dag með David Lidington, ráðherra í ríkisstjórn Theresu May og staðgengli forsætisráðherra Bretlands, í Birmingham á Englandi.
Á fundinum fóru ráðherrarnir yfir nýjustu þróun í viðræðum Breta um útgöngu úr Evrópusambandinu á næsta ári, að því er segir í frétt á vef Stjórnarráðsins. Þá ræddu þeir einnig samskipti Íslands og Bretlands eftir útgönguna, um viðskipti landanna almennt og mikilvægi þess að styrkja þau til framtíðar. Íslendingar líti „enda á Breta sem eina af sínum mikilvægustu bandaþjóðum,“ að því er segir í fréttinni.
Er Bjarni sagður hafa greint Lidington frá því að ríkisstjórn Ísland fylgist vel með þróun þessara mála og áréttaði vilja Íslendinga til að útganga Bretlands úr ESB hefði sem minnst áhrif á samskipti landanna.
Þá eru ráðherrarnir sagðir hafa rætt almennt um efnahagsmál á Íslandi og þróun síðustu ára, auk þess sem Bjarni afhenti Lidington eintak af skýrslu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins, en í henni er m.a. fjallað um það er þáverandi ríkisstjórn Bretlands beitti bresku hryðjuverkalögunum á Íslendinga í tengslum við bankahrunið.