Elísabet Margeirsdóttir varð rétt í þessu fyrsta kona í heimi til að klára Góbí-eyðimerkurhlaupið á undir 100 klukkustundum, en hún hljóp á tímanum 96 klukkustundum og 54 mínútum. Hlaupið er 409 kílómetrar og varð Elísabet níunda í mark af öllum 50 keppendunum.
„Það sem merkilegra er, er að brautin er mun erfiðari en hún hefur verið áður,“ segir Birgir Sævarsson hlaupari sem hefur verið Elísabetu innan handar í keppninni, auk þess sem hann hefur séð um að upplýsa aðdáendur Elísabetar um stöðu hennar í hlaupinu á Facebook.
Í þetta sinn var farið í meiri hæð í hlaupinu, eða 4.000 metra. „Það reyndi rosalega mikið á. Hún var yfir átján klukkustundir í yfir 3.000 metra hæð og fór upp í 4.000. Það var ekki bara hæðin, heldur var líka rosalega kalt. Hún þurfti að vaða yfir mjög straumharða á í mikilli hæð, blotnaði og svo fraus allt,“ úrskýrir Birgir.
Á þessari 409 kílómetra löngu leið eru tíu hvíldarstöðvar þar sem hlaupararnir geta nærst og hvílt sig, en hlaupið er í einni atrennu og er þetta því í raun „keppni í að hvíla sig sem minnst,“ segir Birgir.
„Hún hefur alveg haldið haus og það hefur verið ótrúlegt að heyra í henni, hvað hún er fersk og með allt á hreinu. Hún tekur góðar ákvarðanir, en hún þarf að passa að hún hvíli sig eitthvað þó að hún hvíli sig lítið. Það er auðvelt að fara yfir strikið með það, og eins með næringu.“
„Hún hefur notið sín ótrúlega vel,“ segir Birgir. „Ég held að það sé ástæðan fyrir því að henni gekk svona vel. Henni finnst þetta æðislegt.“