„Í sömu gildru og hundruð annarra“

Sandrius Ungurys segir flesta Litháa telja sig hafa verið svikna …
Sandrius Ungurys segir flesta Litháa telja sig hafa verið svikna við komuna til landsins. Skjáskot/Kveikur

Fyrirtækið Iceland Dogsledding veltir 100 milljónum króna árlega, en launakostnaður er í engu samræmi við hagnað þar sem fyrirtækið virðist mikið til nýta sér sjálfboðaliða sem vinna 12 stunda vinnudaga og eru látnir gista í gámum og tjöldum.

Brattahlíð Travel réð Carolina Brione, spænskan háskólanema, til að aka rútu til og frá Landmannalaugum. Er til landsins kom fór hún hins vegar aldrei í Landmannalaugar, heldur var gert að greiða sjálf fyrir þjálfun fyrirtækisins og látin þrífa, taka til og elda. Hún fékk svo greiddar 40.000 krónur fyrir 20 tólf stunda vinnudaga.

Þá hefur Pakistaninn Sana Shah sætt hótunum af hálfu fyrirtækisins sem réð hann til starfa í Ólafsvík, gerði honum að greiða 7.500 evrur fyrir atvinnuleyfi og lét hann vinna 16 stunda vinnudaga þrátt fyrir að honum væri gert að stimpla sig út eftir átta stundir.

Þetta er meðal þess sem kom fram í fréttaskýringaþættinum Kveik í kvöld, en umfjöllunarefni þáttarins að þessu sinni var erlent vinnuafl.

Gerir það sem manni er sagt

„Ég er í sömu gildru og hundruð annarra,“ sagði litháíski verkfræðingurinn Sandrius Ungurys sem bjó með 30 löndum sínum í atvinnuhúsnæði á vegum Verkleigunnar. Hann segir flesta landa sína hafa talið sig svikna við komuna til Íslands. „Maður kemur hingað og áttar sig á að þetta er býsna ömurlegt,“ segir hann. „Hvað getur maður gert? Hvað bíður manns? Eiginkonan? Hvar eru peningarnir? Og börnin sem þarfnast hins og þessa. Svo maður flýr ekki, heldur gerir það sem manni er sagt. Norpar kaldur í heilan dag og svo drekkur maður smá vodka á kvöldin. Þannig kemst maður af.“

Sögðust útvega allt

Fyrsta reynsla Brione af íslenskum vinnumarkaði var heldur ekki góð. „Þeir sögðust útvega allt; húsnæði, mat. Ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af neinu,“ sagði Brione. Fyrirtækið myndi líka greiða fyrir flugmiða hennar og svo fengi hún 2.500 evrur ( 323 þúsund kr.) í laun.

Starfið átti að felast í því að keyra ferðamenn milli Landmannalauga og Reykjavíkur. Þegar til kom hafi annað verið upp á teningnum og henni gert að greiða fyrir þjálfun og verið sagt að hún þyrfti ekki atvinnuleyfi á Íslandi. „Þá fór þetta að verða ruglingslegt. Ég ók aldrei í Landmannalaugar, en sinnti öðrum störfum eins og þrifum, tiltektum og eldamennsku.“ Fyrirtækið sótti heldur aldrei um íslenska kennitölu fyrir hana og það tók hana langan tíma að fá laun greidd, sem aukinheldur voru í engu samræmi við íslenska kjarasamninga.

Gert að greiða 7.500 evrur fyrir atvinnuleyfi

Pakistaninn Sana Shah kom til Íslands 2017 eftir að hafa starfað sem rútubílstjóri í Dúbaí. Atvinnutilboðið frá North Star-hótelinu í Ólafsvík hljómaði vel, en hótelið er meðal á annars tugs hótela og gististaða sem rekið er af feðgunum Aðalsteini Gíslasyni og Stefáni Hafliða Aðalsteinssyni.

Shah var sagt að atvinnuleyfið kostaði 7.500 evrur og var boðið að greiða 500 evrur sem yrðu dregnar af launum hans mánaðarlega fyrir þeirri upphæð. „Síðan sagðist hún [eiginkona Aðalsteins] vilja fá þrjá til viðbótar í vinnu til sín. Ég lagði fram gögn fyrir bróður minn og tvo aðra,“ sagði hann. Fyrir atvinnu- og dvalarleyfin fyrir þá fjóra var honum gert að greiða 1,5 milljónir kr.

Fyrirtækið hætti síðan við að fá hina starfsmennina þrjá til landsins, en féllst ekki á að endurgreiða þann kostnað.

Hann segir sér hafa orðið snemma ljóst að upplýsingar um vinnutíma og kjör stóðust ekki. Þannig var hann oft og iðulega látinn aka milli landshluta með vistir án þess að fá greitt fyrir. „Stundum fékk ég engan tíma til að sofa. Bara vinna og vinna og drekka orkudrykki,“ segir Shah. „Því ég var einn um að þrífa þrjá staði fyrir þau og sömuleiðis að þrífa heima hjá þeim, taka til í bílskúrnum, þrífa bílinn þeirra, taka til í garðinum hjá þeim og sinna jarðvinnslu fyrir þau.“

Þá hafi starfsfólki verið gert að stimpla sig út eftir átta tíma vinnu, en halda engu að síður  áfram að vinna. „Yfirleitt vann ég meira en 16 tíma,“ sagði hann.

Sex í einu herbergi

Rúmenarnir Cosmir Dragomir og Dan Cosma, sem eru á vegum starfsmannaleigunnar Menn í vinnu hafa verið við byggingarvinnu á höfuðborgarsvæðinu á mun lægri launum en íslenskir samstarfsmenn þeirra. „Þetta er einfalt, vinna, fá laun og senda peninga heim til barnanna,“ segir Cosma. Starfsmannaleigan heldur hins vegar eftir allt að helmingi launa þeirra og segjast þeir hafa látið plata sig hingað til lands. „Starfsmannaleigan hugsar bara um peningana,“ sagði Dragomir.

Þeir vinni 10-11 stunda vinnudaga að sögn Cosma, sem kvaðst vera að leita að annarri vinnu. Eins og væri hefðu þeir ekki efni á að fara frá Íslandi. „Enga peninga, ekki húsnæði, ekki neitt,“ sagði hann.

Þeir búa ásamt 45 öðrum í húsnæði starfsmannaleigunnar í Kópavogi, þar sem allt að sex deili einu herbergi og fyrir það þurfi þeir að greiða 80.000 krónur í húsaleigu. Þá leigi starfsmannaleigan þeim bíl, sem þeir deili allt að níu saman og fyrir það borgi þeir 10.000 kr. á mánuði hver. Öllum er svo gert að greiða 7.000 kr. fyrir líkamsræktarkort hvort sem þeir noti það eða ekki. Þá eru starfsmenn sektaðir um allt að 15.000 kr. leiki grunur á að þeir hafi reykt í bílunum. Eins telji þeir Menn í vinnu ofrukka fyrir flugfar þeirra til landsins og þá vanti oft vinnustundir í launauppgjörið, en taxti þeirra er lægstu mögulegu mánaðarlaun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert