Líklega kveikt í Laugalækjarskóla

Frá eldsvoðanum í Laugalækjarskóla í nótt.
Frá eldsvoðanum í Laugalækjarskóla í nótt. Ljósmynd/Sergio Miernik

Allt tiltækt slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út um hálftvö í nótt vegna elds í Laugalækjarskóla. Reyndist eldurinn vera í klæðningu utan á skólanum og var slökkviliðið rúma þrjá tíma að störfum á vettvangi. Allt bendir til þess að um íkveikju hafi verið að ræða.

Að sögn varðstjóra í slökkviliði höfuðborgarsvæðisins hafði eldurinn náð að fara alla leið upp í þak skólans og fór mikil vinna í það hjá slökkviliðsmönnum að rífa klæðinguna því þrátt fyrir að vel hafi gengið að slá á mesta eldinn þá hljóp eldhreiður bak við klæðninguna og var mjög erfitt að komast að því. 

Reykræsta þurfti skólann þar sem reykur fór inn í húsið. 

Að sögn varðstjóra er örugglega um íkveikju að ræða enda annað ólíklegt þegar kviknar í klæðningu utanhúss. Hann segir að svo heppilega hafi viljað til að ekki komu mörg verkefni upp á sama tíma en kalla þurfti út aukamannskap til þess að taka þátt í slökkvistarfinu.

Málið er nú komið til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Bætt við klukkan 7:30

Samkvæmt upplýsingum frá Laugalækjarskóla verður kennt í skólanum í dag og mæta því nemendur í dag á hefðbundnum tíma.

Laugalækjarskóli.
Laugalækjarskóli. Af vef Reykjavíkurborgar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert