„Það er ýmislegt sem þarf að laga þarna,“ segir Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar, og á við kísilver PCC Bakka á Húsavík. Töluverð starfsmannavelta hefur verið á Bakka og þá hafa starfsmenn verið óánægðir með stjórnarhætti yfirmanna.
Greint var frá óánægju starfsmanna í Fréttablaðinu í morgun.
Gerður var bráðabirgðakjarasamningur sem rennur út um áramót og Framsýn fundar með starfsmönnum í næstu viku þar sem farið verður yfir stöðuna. Aðalsteinn segir að óskað hafi verið breytinga á kjarasamningum.
Hann segir að starfsmenn horfi til annarra verksmiðja, eins og á Grundartanga og Reyðarfirði, en þar séu laun hærri. „Menn verða að vera sanngjarnir en þar hefur verið þróað launakerfi í mörg ár. Það bíður okkur núna; að þróa slíkt kerfi.“
Aðalsteinn segist hafa verið óánægður með ýmislegt og hafi meðal annars skrifað eigendunum í Þýskalandi bréf í upphafi þar sem hann sagði að hann vildi sjá hlutina hjá kísilverinu á Húsavík þróast öðruvísi.
„Samband okkar við yfirmenn þessa fyrirtækis hefur verið stirt og það er ekki okkur að kenna. Við höfum eiginlega gert of mikið til að byggja upp traust á milli aðila. Það er ekki sami vilji hinum megin,“ segir Aðalsteinn en nýr forstjóri, Jökull Gunnarsson, tók við 18. september.
„Við höfum beðið um fund með nýja framkvæmdastjóranum en höfum ekki náð því. Við báðum um það um leið og hann tók við fyrir rúmri viku en fengum bara fund með mannauðsstjóranum. Það er ekkert frumkvæði hinum megin að einu eða neinu,“ segir Aðalsteinn og bendir á að þetta sé kannski helsta vandamálið; samskiptin:
„Það er mesta óánægjan. Menn þurfa að taka sig til og kunna mannleg samskipti.“