Segja ógnandi framkomu ástæðu uppsagnar

Ólafsvík á Snæfellsnesi. Sana Shah kom til Íslands 2017 og …
Ólafsvík á Snæfellsnesi. Sana Shah kom til Íslands 2017 og hóf störf hjá North Star-hót­el­inu í Ólafs­vík. Eigendur hótelsins segja þá mynd sem dregin er upp í þættinum Kveik af starfskjörum hans ekki rétta. Mynd úr safni. mbl.is/Sigurður Bogi

Eigendur North Star Apartments, hótelsins sem fjallað var um í fréttaskýringaþættinum Kveik í gær, segja þann hluta þáttarins sem snúi að þeirra starfsemi ekki standast skoðun. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Aðalsteinn Gíslason, eigandi North Star Apartments, sendi fjölmiðlum í dag.

Segir hann rangt að fyrirtækið sæti rannsókn lögreglu vegna mansals líkt og haldið hafi verið fram í þættinum. „Lögreglan tók málið til skoðunar en komst að þeirri niðurstöðu að ekkert væri hæft í framkomnum ásökununum [sic]. North Star Apartments hefur aldrei komið nálægt neinu sem tengist mansali og fordæmir öll slík mannréttindabrot og glæpastarfsemi,“ segir í yfirlýsingunni.

Í þættinum var rætt við Sana Shah, fyrrverandi starfsmann fyrirtækisins, sem lýsti því m.a. að 1,5 milljónir hefðu verið dregnar af launum hans vegna kostnaðar við atvinnuleyfi fyrir hann og þrjá aðra, sem ráða átti til fyrirtækisins. Þá sagðist hann hafa unnið allt að 16 tíma vinnudag, en ekki hafa fengið greitt í samræmi við þá vinnu.

Fyrirtækið segir ekki rétt að sú upphæð hafi verið dregin af launum hans og að Shah hafi verið sagt upp störfum vegna þess að hann hafi sýnt öðru starfsfólki ógnandi framkomu og hafi sinnt störfum sínum illa. „Umræddur starfsmaður starfaði hjá fyrirtækinu í 8 mánuði. Á því tímabili fékk hann greidd laun að fjárhæð 615.000 kr.- að meðaltali á mánuði og þar með talið eins mánaða[r] uppsagnafrest og tvo mánuði greidda í starfslokasamning,“ segir í yfirlýsingunni.

Fyrirtækið lýsi þá yfir vonbrigðum með vinnubrögð Starfsgreinasambands í málinu. „North Star Apartments sendi öll gögn til Verkalýðsfélag[s] Snæfellsness, sem er aðili að Starfsgreinasambandinu, sem sýna skýrt fram á að ekkert er óeðlilegt við framkomu fyrirtækisins í garð umrædds starfsmanns og að uppsögn hans byggði á lögmætum og eðlilegum ástæðum.“

Vinnubrögð RÚV valdi einnig vonbrigðum, þar sem aldrei hafi verið haft samband við eigendur North Star Apartments og „þeir beðnir um að greina frá sinni hlið málsins“.

Miður sé að þegar fjallað sé um jafnmikilvæg mál og réttindi og stöðu erlends launafólks hér á landi að þá sé „grafið undan trúverðugleika umfjöllunarinnar með jafn ámælisverðum vinnubrögðum“ og gert hafi verið í þættinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert