Sameiginlegur fundur velferðar- og atvinnuveganefndar verður haldinn á miðvikudaginn í næstu viku, 10. október, þar sem farið verður yfir upplýsingar sem komu fram í fréttaskýringaþættinum Kveik á mánudaginn um hugsanlegt vinnumansal og aðbúnað erlendra verkamanna hér á landi.
Að sögn Halldóru Mogensen, formanns velferðarnefndar, verður fjölmörgum boðið á fundinn, þar á meðal ráðherra, eftirlitsaðilum, fulltrúum stéttarfélaga og aðilum frá lögreglunni sem sinnt hafa vinnumansalsmálum. „Við erum að reyna að fá heildarmynd á þetta. Hver eru vandamálin og hvernig við getum lagað þau,“ segir Halldóra, en gera má ráð fyrir því að fundurinn standi yfir í tvo klukkutíma. Hún tekur fram að um fundirnir geti orðið fleiri, enda um umfangsmikið mál að ræða.
„Markmiðið með fundinum er að heyra frá þeim aðilum sem að tala við fólkið sem lendir í þessum aðstæðum, Þá aðila sem eiga að sjá um eftirlitið, lögregluna og fleiri, til að heyra hvað þeir telja vera vandamálið. Og hverjar eru þeirra hugmyndir um lausnir. Svo tökum við þær upplýsingar og ákveðum sem nefnd hvaða skref við viljum taka.“