Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, velti því meðal annars fyrir sér í ávarpi við upphaf ráðstefnunnar „Hrunið þið munið“ í hátíðarsal Háskóla Íslands hvort hugsanlega hefði ekki liðið nógu langur tími frá falli viðskiptabankanna þriggja haustið 2008 og eftirleik þess til þess að leggja nægjanlega gott mat á þessa atburði. Þeir væru kannski of nálægt í tíma.
„Við rannsókn hrunsins, eins og í öðrum verkum sem lúta að liðinni tíð, stöndum við andspænis vanda sem lítur að staðreyndum og atburðarás annars vegar og túlkunum og tíðaranda og sjónarhól hins vegar. Einhver allsherjar afstæðishyggja á aldrei að ráða för. Til eru staðreyndir sem ekki verður deilt um. Hitt er hins vegar rétt að sínum augum lítur hver silfrið og sjónarhorn skiptir máli, tilgangur,“ sagði Guðni og bætti við að tíminn skipti líka máli í því sambandi.
Rannsóknir á sögu bankahrunsins væru frábært dæmi um þau álitamál og áskoranir sem fylgdu því að rýna í umdeilda atburði í nýliðinni tíð. Vísaði forsetinn í kenningar um áföll, sorg og viðbrögð þar sem gjarna kæmi fram að fyrst eftir áfall sé fólk dofið og jafnvel í nokkurs konar afneitun. Kannski mætti heimfæra þetta upp á fyrstu vikurnar og misserin í kjölfar fall bankanna.
„Vissulega hófust mótmæli en engu að síður var samfélagið frekar eins og lamað, í einhvers konar sjokki. Svo kom reiðin, rétt eins og áfallafræðin segja,“ sagði forsetinn ennfremur. Síðan hafi komið eindregin löngun til þess að skilja hvers vegna svona hafi farið. Sumir hafi ásakað sjálfa sig og viðurkennt eigið dómgreindarleysi en um leið hafi leitin að orsökunum hafist.
„Ég held að það megi enginn vera undanskilinn í þessu, allir sem á einhvern hátt komu að ákvörðunum, túlkunum, ályktunum. Ég held við getum öll sagt: Við höfðum ekki alltaf rétt fyrir okkur, við tókum ekki alltaf réttu ákvarðanirnar,“ sagði Guðni. Smám saman hafi bæst við upplýsingar um bankahrunið og ekkert lát verið á rannsóknum í þeim efnum.
„Það er freistandi að segja að hafi einhver hagnast á hruninu þá sé það fræðafólk í hug- og félagsvísindum,“ sagði forsetinn. Þannig að rannsóknirnar væru fyrir hendi. Síðasta skrefið samkvæmt áfallafræðunum snerist um ákveðna sátt þegar fólk hefði fengið einhvers konar vitneskju um það hvers vegna hlutirnir hafi farið eins og þeir hafi farið.
„Þegar sagan um sögu hrunsins er skoðuð allt til okkar daga er auðvitað vandséð, það verður að viðurkennast, að við höfum náð samfélagslegri sátt um orsakir hrunsins og hvernig glíma skuli við afleiðingar þess. Og erum við þá ekki bara of nærri hruninu? Hefur nægur tími liðið?“ Dæmin sýndu að nýjar upplýsingar gætu gerbreytt sýn fólks á gang sögunnar.
Hrunið væri að þessu leytinu til að sjálfsögðu of nálægt í tíma. Sagðist Guðni eftirláta áheyrendum að hugsa um það með sér hvort það væri líka svo nálægt í tíma að ómögulegt væri að ná þeirri samfélagslegu sátt sem ávallt næðust eftir áföll í lífi einstaklinga eða samfélaga.
Markmiðið með því að rifja upp það sem gerðist fyrir áratug ætti ekki að byggja á illsku eða úlfúð heldur fyrst og fremst viðleitni til þess að draga lærdóm af þeirri reynslu.