Bresk stjórnvöld létu Ísland róa

„Ríkisstjórnin lét í rauninni ekki Icesave róa, hún lét Ísland róa. Það er alveg ljóst að það var fyrir hendi óánægja með það hvernig íslensku bankamennirnir höfðu hagað starfseminni,“ segir Mark Sismey-Durant, fyrrverandi framkvæmdastjóri Icesave-netbankans, í samtali við breska dagblaðið Sunday Times þar sem hann tjáir sig um örlög bankans fyrir tíu árum. Vísar hann þar til þess hvernig þáverandi ríkisstjórn Bretlands tók á málum.

Fram kemur í viðtalinu að Sismey-Durant hafi allt þar til fáeinum klukkustundum áður en Icesave féll fullyrt við viðskiptavini bankans að peningarnir þeirra væru öruggir. Sismey-Durant segist í viðtalinu sjá mjög eftir því en þar segir að þetta sé í fyrsta sinn sem hann lýsi því yfir. Hann segist ekki hafa haft upplýsingar um hversu alvarleg staða bankans hafi verið.

„Það er ýmislegt sem ég sé mjög eftir. Ég svaraði sumum spurningum samkvæmt bestu vitund en ég held ekki að ég hafi vitað algerlega hvað var í gangi. Við vorum ekki hafðir með í ráðum,“ segir Sismey-Durant og bætir við að Íslendingar séu yndislegt fólk en í erfiðum aðstæðum sé oft lítið um svör frá þeim. Erfiðum spurningum sé þá kannski ekki svarað.

Bresk stjórnvöld vildu refsa Íslandi

Fram kemur að á sama tíma og Sismey-Durant hafi reynt að sannfæra viðskiptavini Icesave um að peningarnir þeirra væru öruggir hafi bresk stjórnvöld verið að undirbúa það að loka bankanum. Breska fjármálaeftirlitið hafi hafið undirbúning neyðaraðgerða til þess að bjarga öllu bankakerfinu í Bretlandi en íslensku bönkunum í landinu hafi engin aðstoð boðist.

Framkvæmdastjórinn fyrrverandi segir í viðtalinu að hann telji að það hafi verið úthugsuð ákvörðun hjá breska fjármálaráðuneytinu að skilja íslensku bankastofnanirnar eftir. „það sjónarmið var fyrir hendi hjá bresku ríkisstjórninni að það þyrfti að refsa Íslandi fyrir gjálífi þess. Fram kemur í fréttinni að margir á Íslandi deili þeirri skoðun Sismey-Durants.

Annað Icesave-mál óhugsandi í dag

Sismey-Durant segist telja annað Icesave-mál óhugsandi í dag þar sem reglum Evrópusambandsins hafi síðan þá verið breytt. Viðurkennt sé að fyrirkomulag Icesave, útibú frá erlendum banka, hafi ekki verið heppilegt með tilliti til öryggis innistæðueigenda. Ekki væri lengur hægt fyrir banka utan Evrópusambandsins að reka slíka starfsemi innan þess.

Lærdómur hafi því verið dreginn af Icesave-málinu innan Evrópusambandsins. Stóra vandamálið á þeim tíma hafi verið sú ályktun að allir eftirlitsaðilar væru jafnvel í stakk búnir til þess að sinna hlutverki sínu við þessar aðstæður sem hafi ekki verið rétt. Þannig hafi eftirlitsaðilar á Íslandi ekki haft neina reynslu af eftirliti með slíkri bankastarfsemi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert