„Við viljum spýta svolítið í“

Björn Snæ­björns­son, formaður Starfs­greina­sam­bands Íslands, og Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir, formaður …
Björn Snæ­björns­son, formaður Starfs­greina­sam­bands Íslands, og Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir, formaður Efl­ing­ar, að lokn­um fundi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, segir að aðalkrafa sambandsins sé að lágmarkslaun verði 425.000 krónur í lok samningstíma að því gefnu að ekki komi til um­tals­verðra skatt­kerf­is­breyt­inga. Hann vill tala um krónutöluhækkun en ekki prósentuhækkun lægstu launa.

Í kröfu­gerð Starfs­greina­sam­bands­ins gagn­vart Sam­tök­um at­vinnu­lífs­ins kem­ur fram að for­send­ur þess að kjara­samn­ing­ar verði und­ir­ritaðir sé að launa­fólk geti fram­fleytt sér á dag­vinnu­laun­um og þau mæti op­in­ber­um fram­færslu­viðmiðum. Aðspurður segir Björn að hinir lægst launuðu geti það ekki eins og staðan er í dag.

„Það er þannig að viðmiðin eru hærri en launin. Við viljum spýta svolítið í þannig að það sé alla vega meiri möguleiki en í dag,“ segir Björn. Auk þess krefst Starfsgreinasambandið þess að lægstu laun verði skattfrjáls með tvöföldun persónuafsláttar.

Öll félög innan Starfsgreinasambandsins, 19 talsins, standa að kröfugerð sem kynnt var síðdegis. Kröfu­gerðirn­ar snúa ann­ars veg­ar að stjórn­völd­um og hins veg­ar að at­vinnu­rek­end­um. Björn segir að þetta sé í fyrsta skipti sem öll félögin sendi frá sér slíka yfirlýsingu og samstaðan sé mjög góð.

Auk áðurnefndra launahækkana nefnir Björn að stytting vinnuvikunnar sé mjög mikilvæg. „Einnig tillögur um hátekjuskatt og fjármagnstekjuskatt til að fjármagna ákveðinn hluta hækkunar á persónuafslætti.“

Spurður hvernig hann telji að viðsemjendur, sér í lagi Samtök atvinnulífsins, taki þessum kröfum býst Björn ekki við jákvæðum viðbrögðum. „Ég veit að þeim finnst þetta mikið en við teljum þetta raunhæft,“ segir hann og bætir við að kröfurnar séu í takt við annað sem hefur verið í gangi í þjóðfélaginu.

„Það er hægt að minna á að menn hafa ekki fúlsað við því að hækka laun opinberra aðila; þar er hægt að nefna kjararáð og forstjóra og ýmislegt annað. Það er heldur meiri hækkun en það sem við tölum um.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert