Engar uppsagnir fyrirhugaðar

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/​Hari

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gerir ráð fyrir því að leggja fram frumvarp um sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins, FME, á Alþingi næsta vor. Fyrirhuguð er umræða á þingi um sameininguna í næstu viku, þar á meðal skýrslu þeirra Ásgeirs Jónssonar, Ásdísar Kristjánsdóttur og Illuga Gunnarssonar um framtíð íslenskrar peningastefnu.

„Ég vonast til að heyra sjónarmið þingmanna um ýmsar þær tillögur sem þar eru en frá því að sú skýrsla var kynnt hef ég ekki orðið vör við harða gagnrýni á tillögurnar,“ segir Katrín, spurð hvort samstaða sé á meðal þingmanna um málið.

Málið reifað í mörgum skýrslum

Hún tekur fram að möguleg sameining Seðlabankans og FME hafi verið reifuð í allnokkrum skýrslum en sú nýjasta er skýrsla Ásgeirs, Ásdísar og Illuga. Einnig hafði sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins mælt með sameiningunni. „Það stóð til að endurskoða lögin um Seðlabankann og þetta verður þá hluti af leiðarljósinu í þeirri vinnu sem er að fara af stað núna,“ segir Katrín.

Síðan skýrslunni um framtíð íslenskrar peningastefnu var skilað í sumar hefur ráðherranefnd um efnahagsmál rætt tillögurnar, meðal annars við Seðlabankann og FME. Niðurstaðan var sú að fara í endurskoðunina með það meðal annars að markmiði að sameina stofnanirnar tvær.

Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið.
Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið. mbl.is/Samsett mynd

Kallar á mikla sérfræðikunnáttu

„Traust, gagnsæi og skilvirkni eru meginstef,“ segir Katrín um ástæðuna fyrir sameiningunni. Hún nefnir tvenns konar rök, annars vegar að eðlilegt sé að stofnanirnar sameinist vegna þess hve FME er mikilvægur hluti af þjóðhagsvarúðinni og þar af leiðandi utanumhaldi um peningastefnuna. „Hins vegar liggur það líka fyrir að í okkar litla samfélagi getum við vafalaust aukið samlegð með því að láta stofnanir vinna betur saman. Ekki síst þar sem þetta kallar á mikla sérfræðikunnáttu, að halda utan um hagstjórnina í þessu samfélagi okkar.“

Á vegum ráðherranefndarinnar starfar verkefnisstjórn um peningastefnu, þjóðhagsvarúð og fjármálaeftirlit sem forsætisráðherra skipaði. Hún á að skila drögum að lagafrumvörpum til ráðherranefndarinnar eigi síðar en 28. febrúar á næsta ári. „Við leggjum áherslu á að þetta gangi eins greitt og hægt er,“ segir Katrín um frumvarpið um sameininguna, sem er á þingmálaskrá hennar fyrir vorönn. „Ef það gengur ekki eftir verður það bara snemma í haust.“

Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. mbl.is/Hari

Staða seðlabankastjóra verður auglýst

Ein af tillögum skýrslunnar um framtíð peningastefnunnar er sú að einn seðlabankastjóri verði ráðinn og tveir aðstoðarseðlabankastjórar. Lagt er til að annar aðstoðarseðlabankastjóranna verði með áherslu á fjármálastöðugleika og hinn á hefðbundna stjórn peningamála. Spurð út í stöðu Más Guðmundssonar seðlabankastjóra vegna sameinaðrar stofnunar bendir Katrín á að auglýst verði eftir nýjum seðlabankastjóra þar sem ekki er hægt að ráða sama manninn lengur í embættið en tíu ár.

Verður fólki sagt upp við sameininguna?

„Það er alls ekki hugsunin á bak við þetta enda erum við að nýta sérfræðiþekkinguna sem best. Við munum vinna þetta í nánu samráði við báðar stofnanir og leggjum mikla áherslu á að vanda okkur,“ segir Katrín og nefnir að fundað hafi verið með forstjórum og aðstoðarforstjórum Seðlabankans og FME.  „Við erum ekki með neitt slíkt markmið heldur erum við fyrst og fremst að hugsa um trausta umgjörð um peningastefnuna,“ segir hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert