Með allt aðrar hugmyndir en höfuðandstæðingurinn

Logi Einarsson heldur ræðu sína á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag.
Logi Einarsson heldur ræðu sína á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fara verður leið jafnaðarmanna í loftslagsmálum, ekki hægri aflanna. Fjárfesta þarf miklu meira í menntun og búa mun betur að ungu fólki ef þess á að vænast að þau hafi áhuga á að búa á Íslandi í framtíðinni. Þá þarf að breyta gallaðri stjórnarskrá. Þetta allt er meðal fjölmargs sem kom fram í ræðu Loga Einarssonar formanns Samfylkingarinnar á flokksstjórnarfundi flokksins á Hótel Reykjavík Natura í dag.

Samfylkingin þarf að vera virkur samherji í alþjóðlegri baráttu gegn „stærstu ógnum samtímans: ójöfnuði, ófriði og loftlagsvánni“, sagði Logi. Nú þegar þjóðarskútan sé komin á réttan kjöl, tíu árum eftir efnahagshrunið, skipti máli að taka nýjan kúrs. Í þeim efnum hafi Samfylkingin afgerandi skýra sýn og allt aðrar hugmyndir en „höfuðandstæðingur“ flokksins á hægri vængnum. Með því átti Logi að vonum við Sjálfstæðisflokkinn.

Logi sagði ríða á að Samfylkingin næði vopnum sínum svo að tækist að mynda félagshyggjustjórn eftir næstu kosningar. Hann vill: réttlátari skattbyrði fyrir launafólk; upptöku evru; rétta hlut ungs fólks, sem varð eftir í hagvaxtarsveiflu síðustu ára, og svo nefndi hann einnig að uppræta þyrfti níðingsskapinn sem viðgengist á vinnumarkaðnum. Þar var hann að vísa í umræðu síðustu vikna um slæma meðferð á erlendu vinnuafli.

Auðvaldið má ekki eitt hagnast af tæknibreytingum

Í ræðu sinni varð Loga tíðrætt um breytingar þær sem tækniframfarir koma til með að hafa á samfélagið, um aukna vélvæðingu á vinnumarkaði. Hann sagði útilokað að berjast gegn tæknibreytingum þessum, að heldur þyrfti að finna leiðir til að beisla þær í okkar þágu. Ekki þurfi lengi að leita til að sjá hið jákvæða í stöðunni: breytingarnar auka framleiðni mannsins, gera okkur kleift að framleiða vistvænni vörur og skapa betri og fjölskylduvænni lífsskilyrði.

Fundurinn fer fram á Hótel Reykjavík Natura.
Fundurinn fer fram á Hótel Reykjavík Natura. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í því samhengi er þjóðþrifamál, finnst Loga, að arðurinn sem fæst af vinnu vélmenna renni ekki allur til eigenda fjármagnsins og framleiðslutækjanna. Huga þarf að skattabreytingum í þessum málum, svo að ávinningur nýrrar tækni skili sér í auknum lífsgæðum fyrir almenning. Það væri stjórnvalda að tryggja þetta. Og Samfylkingarinnar.

„Án ykkar hefði skrifstofunni verið lokað og starfið koðnað niður“

„Rekstur stjórnmálaflokks er ekki einungis vettvangur pólitískrar deiglu og málefnavinnu,“ sagði Logi undir lok ræðu sinnar. „Það þarf líka að reka fjöldahreyfingu sem starfar um allt land.“ Logi þakkaði flokksmönnum störf sín og tryggð við hugsjónina. Hann sagði að starf flokksins hefði að öllum líkindum koðnað niður ef ekki væri fyrir störf hins almenna flokksmanns. Hann nefndi í því sambandi ósérhlífni tiltekins skrifstofustjóra sem tók að sér skúringar þegar efni stóðu ekki til að greiða ræstingarstarfsfólki.

Nú er flokkurinn búinn að ráða öflugt starfsfólk, sagði Logi. Rekstrarviðsnúningur félagsins eru 60 milljónir og 17 milljónir hafa safnast í sóknarátökum. Það er því ekkert því til fyrirstöðu, „að sækja óhikað áfram.“

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert