„Ekki taka þátt í Eurovision“

Feda Abdelhady-Nasser.
Feda Abdelhady-Nasser. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Nei, þið ættuð ekki að taka þátt í Eurovision í Ísrael,“ svarar Abdelhady-Nasser aðspurð án umhugsunar en hún er sendiherra og varafastafulltrúi Palestínu hjá Sameinuðu þjóðunum.

„Þið ættuð ekki að láta eins og hernámið sé eðlilegur hlutur, ekki gera þennan stöðuga ágang sem fólk hefur þurft að þola í áratugi að venjulegum hlut,“ segir Abdelhady-Nasser en hún kom hingað til lands til að taka þátt í málstofu á vegum RIFF og Höfða, friðarseturs Reykjavíkurborgar og HÍ.

„Vandamálið er að það hefur verið litið á Ísrael eins og hvert annað land. Já, Ísrael er hluti af alþjóðasamfélaginu og það er ríki og Palestína viðurkenndi rétt Ísraels fyrir meira en 25 árum. Ísrael hefur hins vegar ekki rétt á að vera til á kostnað annarra. Við viljum vera til hlið við hlið, byggt á landamærunum frá 1967, en það sem hefur gerst er að Ísrael hefur haldið hernáminu áfram og neitað réttindum Palestínumanna og komist upp með það. Þetta er ekki tvennt aðskilið; ríkisstjórnin sem blokkerar Gaza og rænir landi er sama ríkisstjórnin og heldur Eurovision. Fólk er hrætt um að ef það tekur ekki þátt í keppninni lendi það í vandræðum eða einelti en það er þess virði að taka þessa áhættu,“ segir hún.

Netta Barzilai söng til sigurs fyrir Ísrael í fyrra.
Netta Barzilai söng til sigurs fyrir Ísrael í fyrra. AFP

„Rétt fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu átti Argentína að spila æfingalandsleik við Ísrael í Jerúsalem. Argentínska knattspyrnusambandið hætti við þátttöku. Það varð uppnám en á endanum gerðu knattspyrnumennirnir það rétta í stöðunni og settu fordæmi.“

Sífellt fleiri tónlistarmenn og hljómsveitir hætta við eða vilja ekki spila í Ísrael. „Tónlistarfólk, leikarar og íþróttafólk virðist vera hugaðra en stjórnmálafólkið og það getur hjálpað til við að leiða okkur áfram. Það gefur málstað Palestínumanna sýnileika þegar einhver eins og Lorde eða Lana del Rey segjast ekki ætla að spila í Ísrael eða þegar leikari á borð við Danny Glover talar gegn hernáminu eða Hugh Grant talar fyrir UNRWA. Messi hefur sýnileika og milljónir aðdáenda. Hann getur fengið fólk til að hugsa.“

Allir fá einn disk við borðið

Hún segir að fámenn lönd megi alls ekki hugsa sem svo að þeirra afstaða skipti ekki máli. „Þetta snýst um að trúa því að rödd landsins skipti máli þótt það sé lítið, og trúa því að landið sé hluti af þessu alþjóðasamfélagi. Alþjóðasamfélagið er fjölskylda þjóða og allir í fjölskyldunni skipta máli. Allir fá einn disk við borðið; þú færð ekki tíu diska þótt þú sért stór og mikill.“

Hún segir mikilvægt að fólk átti sig á að þetta snýst ekki um að vera á móti Ísrael eða gyðingum. „Maður er fylgjandi mannréttindum, réttlæti og friði. Þetta hef ég sagt mörgum þeim sem ég hef hitt og rætt við, að það að styðja réttindi Palestínumanna er ekki það sama og gyðingahatur. Að gagnrýna Ísraela fyrir ólöglega hegðun sína er ekki gyðingahatur. Það verður að láta þetta til hliðar í upphafi allra umræðna um málið, hvort sem þær eru diplómatískar eða persónulegar; ég er ekki á móti Ísraelum eða ástunda gyðingahatur en ég styð réttindi Palestínumanna til frelsis og réttlætis og ég styð við mannréttindi.“

Þetta er brot úr stærra viðtali við Abdelhady-Nasser sem birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert