Grasrót Pírata krefst svara

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, fyrir utan …
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, fyrir utan braggann dýra í gær. mbl.is/​Hari

„Þetta verkefni er ólíkt öllum öðrum verkefnum að því leyti að það var unnið alfarið á sviði eigna- og atvinnuþróunar en ekki á umhverfis- og skipulagssviði þar sem svona stórar framkvæmdir eru alla jafna. Það voru því allt öðruvísi verkferlar en hefði verið æskilegt við þetta verkefni,“ sagði Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi og formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur, í samtali við mbl.is í dag.

Píratar héldu í dag félagsfund vegna „framúrkeyrslu í Braggamálinu“, þar sem borgarstjórnarflokkurinn rakti tímalínuna í Braggamálinu og sat svo fyrir svörum. Sigurborg sagði að í upphafi fundar hefði mátt finna nokkra óánægju meðal grasrótar hreyfingarinnar en fundurinn hafi þó gengið mjög vel og mikið hafi verið um spurningar

Sigurborg segir flesta spyrja sig að því sama í málinu: …
Sigurborg segir flesta spyrja sig að því sama í málinu: Hvernig gat þetta gerst? mbl.is/​Hari

Skýr skilaboð

„Grasrótin krefst svara, það er alveg skýrt,“ sagði Sigurborg í samtali við mbl.is eftir fundinn í dag. „Það sem brennur mest á fólki er hvernig þetta gat eiginlega gerst. Við erum ekki komin með endanlegt svar við því. Við gátum hins vegar farið yfir tímalínuna og sagt frá því hvernig þetta mál hefur snert kjörna fulltrúa.“

Sigurborg sagðist ekki hafa svör við því hvers vegna verkefnið hafi ekki verið unnið á sviði umhverfis- og skipulagsmála, og sagði að fjölda annarra spurninga væri enn ósvarað. Píratar hyggist þó ætla að leita skýringa og bíða niðurstöðu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar.

Búið að greiða alla reikninga

„Þegar málið kemur til borgarráðs núna 16.ágúst, þar sem er verið að biðja um aukagreiðslur vegna þess að verkefnið sé farið fram úr áætlun, og kosti núna yfir 400 milljónir, þá var það „ætlað samþykki“. Þá var búið að greiða reikningana. Það er mjög varúðavert.“

Þá nefndi Sigurborg að samkvæmt þeim upplýsingum sem hún hefur skoðað hafi byggingarnar þrjár ekki verið verndaðar í deiliskipulagi, og því hafi mátt rífa þær og endurbyggja í sambærilegri mynd, sem hefði verið mun hagkvæmari kostur. Hvers vegna það hafi ekki verið gert sé einnig ein af spurningunum sem Píratar hyggjast fá svör við á næstu dögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert