Vinstrihreyfingin – grænt framboð er að móta sérstaka stefnu til að taka á kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi innan hreyfingarinnar. Með þessu vill flokkurinn tryggja að rétt sé tekið á málum „ekki ef heldur þegar“ þau koma upp, eins og segir í skýrslunni.
Drögum að nýrri stefnu og aðgerðaráætlun var vísað til jafnréttisnefndar á flokksráðsfundi í Kópavogi í dag. Unnið er að því að móta heildræna stefnu, sem á að vera samþykkt á landsfundi 2019. Þetta er gert í tilefni af MeToo-byltingunni.
Í samtali við mbl.is sagði Una Hildardóttir gjaldkeri flokksins að þetta væri ekki gert í ljósi neins eins tiltekins atviks, heldur í ljósi byltingarinnar í heild. „Við vildum setja framsækna stefnu þar sem kemur skýrt fram að Vinstrihreyfingin grænt framboð líði aldrei kynferðislega eða kynbundna áreiti eða ofbeldi í starfinu,“ segir Una.
Í tillögunni er lagt til að stofnað sé trúnaðarráð til að halda utan um ferli ef kynferðisbrot koma upp. Þá eru skilgreiningar á kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni uppfærðar í tillögunni. Meðal breytinga er viðbót þar sem ofbeldi og áreitni á grundvelli kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar er skilgreint sem kynbundið ofbeldi.
Þá er bætt við skilgreiningu á stafrænu kynferðisofbeldi. Stefnan sem lesa má úr þessum drögum er nokkuð afdráttarlaus: upplifun þess sem verður fyrir áreitninni eða ofbeldinu er í stefnunni talin mælikvarði á alvarleika ofbeldisins. Drögin má lesa hérna.