Hundur gekk laus í Ölfusi fyrir um viku síðan og drap þar hóp fjár. Þetta staðfestir lögreglan á Suðurlandi í samtali við mbl.is.
Samkvæmt upplýsingum mbl.is fann bóndi á svæðinu dautt lamb á föstudag fyrir rúmri viku. Á laugardag ákvað umráðamaður fjárins að athuga aðstæður og fann þá sex dauðar kindur til viðbótar. Þá mun hafa sést til hundsins drepa þrjár kindur á um tíu mínútum á sunnudagsmorgun.
Í kjölfarið var hundurinn fangaður af lögreglu. Síðar hafa fundist lömb sem eru illa slösuð eftir hundinn, en upplýsingar um hvar hundurinn er niður kominn núna fengust ekki staðfestar við vinnslu fréttarinnar.