Bað um afsögn stjórnarformanns

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, óskaði eftir afsögn stjórnarformanns Félagsbústaða …
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, óskaði eftir afsögn stjórnarformanns Félagsbústaða í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, óskaði eftir afsögn Haraldar Flosa Tryggvasonar, stjórnarformanns Félagsbústaða, á fundi minnihlutans og stjórnarformannsins sem var haldinn í hádeginu í dag. Þetta kemur fram í samtali Kolbrúnar við blaðamann.

„Við í minnihlutnum funduðum í hádeginu með stjórnarformanninum. Ég var sú eina sem óskaði eftir að hann myndi segja af sér. Við þurfum bara að taka þetta alla leið núna, ekkert persónulegt gagnvart honum, en þegar svona er komið dugar ekki til að framkvæmdastjórinn pakki. Hann ber ábyrgð,“ segir hún.

Spurð hvort það hafi verið afstaða minnihlutans svarar hún því neitandi. „Ég hefði auðvitað viljað að hinir tækju undir með mér, en ég var líka sú sem talaði fyrst um að Dagur ætti að stíga til hliðar vegna Braggamálsins. Þá tók engin undir, en nú er Eyþór farinn að tala um það.“

Fram hefur komið að heild­ar­kostnaður Fé­lags­bú­staða vegna fram­kvæmd­a urðu 330 millj­ónum króna um­fram þær heim­ild­ir sem stjórn­in veitti og fel­ur í sér 83% framúr­keyrslu, e heildarkostnaður var 728 milljónir króna.

Úttekt á rekstri hafnað

Kolbrún lagði fram á fundi borgarstjórnar í júní síðastliðinn tillögu um að óháður aðili yrði fenginn til þess að taka út rekstur Félagsbústaða, en sú tillaga var felld. Hún segist hafa ítrekað hafa lagt fram tillögur er snerta starfsemi Félagsbústaða.

„Fyrsta tillaga mín var um rekstrarúttekt og það var í júní og þá vildi ég líka láta skoða þjónustusamningana og hvernig þeir eru kynntir fyrir leigjendum. Síðan vildi ég einnig viðhorfskönnun, því að fólk kvartar yfir vondu viðmóti. Svo vildi ég fá óháðan aðila til þess að meta viðhaldsþörf þegar væri ágreiningur, enda hafa verið dómsmál þessu tengt,“ segir borgarfulltrúinn.

„Svona hef ég haldið áfram með reglulegu millibili og djöflast og djöflast. Ekki við miklar vinsældir meirihlutans. Allstaðar gengið á veggi, ekki fengið hlustun og mikið hunsað. Þar til allt í einu núna þegar þetta springur,“ bætir hún við

Hún segir upplýsingar um starfsemi Félagsbústaða berast henni og telur líklegt að meira eigi eftir að koma fram um starfsemi félagsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert