Leitin að höfundum Íslendingasagnanna

Reykholt í Borgarfirði.
Reykholt í Borgarfirði. mbl.is/Árni Sæberg

Dr. Haukur Þorgeirsson málfræðingur mun í kvöld kl. 20:30 halda fyrirlestur í Snorrastofu í Reykholti og ræða meðal annars um leitina að höfundum Íslendingasagnanna. Í miðaldahandritum er engin þeirra eignuð höfundi með skýrum hætti en fræðimenn hafa tengt þær við nafngreinda einstaklinga með ýmsum rökum.

„Stílmæling með aðstoð hugbúnaðar, þar sem textarnir eru á tölvutæku formi og orðtíðni borin saman milli texta, er nýleg tækni sem hefur auðveldað rannsóknarvinnuna og getur sagt okkur að það sé líklegt að ákveðnir textar séu eftir sama höfund,“ segir Haukur. Hann bætir við að það flæki þó málin að textar í miðaldahandritunum séu fæstir eignaðir nokkrum höfundum. „Þannig var nú bara tískan í þá daga, það þótti óþarfi. Það eru helst konungasögurnar sem eru eignaðar nafngreindum höfundum, þar á meðal Snorra Sturlusyni, Sturlu Þórðarsyni og Oddi munki.“

Hverjir eru höfundar Íslendingasagnanna?

Haukur segir enga Íslendingasagnanna eignaða höfundi með skýrum hætti en fræðimenn hafi með ýmsum rökum tengt þær við nafngreinda einstaklinga frá 13. öld. „Fræðimenn hefur lengi grunað að eitthvað af Íslendingasögunum sé eftir þá frændur Snorra Sturluson og Sturlu Þórðarson. Egils saga hefur verið kennd Snorra Sturlusyni en orðafar Egils sögu hefur verið borið saman við orðafar Heimskringlu og þar eru sláandi líkindi. Það er auk þess rökrétt að Snorri hafi skrifað söguna vegna tengsla hans við svæðið þar sem hún gerist og fjölskyldutengsla.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert